Vel heppnað heilbrigðisþing um heilsugæsluna – myndir og upptaka frá þinginu
Yfir 300 manns sóttu árlegt heilbrigðisþing heilbrigðisráðherra sem haldið var á Reykjavík hótel Nordica í gær og fjöldi fylgdist með í beinu streymi. „Heilsugæslan, svo miklu meira…" var yfirskrift þingsins þar sem fjallað var um heilsugæslu í víðu samhengi, hugmyndafræði þjónustunnar, þróun hennar, stöðuna í dag og áskoranir og sóknarfæri til framtíðar. Upptaka frá þinginu er aðgengileg á vef ráðuneytisins og eins eru birtar hér svipmyndir frá því.
Aðalfyrirlesarar voru Jóhann Ágúst Sigurðsson professor emeritus og heilsugæslulæknir sem hefur starfað við heilsugæslu í rúm 40 ár, dr. Minna Johansson, heilsugæslulæknir í Svíþjóð sem fer fyrir alþjóðlegu rannsóknarsetri um sjálfbæra heilsugæslu og dr. Charles Normand, prófessor í hagfræði með áherslu á endurhæfingu og líknandi meðferð. Jóhann Ágúst ræddi um upphaf og þróun heilsugæslu til þessa dags, um skynsamlega ráðstörfun fjármuna, samfélagslega ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks gagnvart sjúklingum og samfélaginu í því ljósi og um gildi og vísindi í heilbrigðisþjónustu. Áhersla Minnu var á sjálfbæra þróun heilsugæslu og þörfina fyrir betri forgangsröðun í þágu þeirra sem mest þurfa á þjónustu að halda. Charles beindi sjónum einkum að því hvernig þjónustu heilbrigðiskerfisins er háttað við fólk á efri árum sem er með flóknar og samsettar þarfir fyrir þjónustu heilbrigðis- og félagslega kerfisins. Þar sýna rannsóknir að með breyttri nálgun, aukinni áherslu á forvarnir og endurhæfingu og samþættari þjónustu heilbrigðis- og félagsþjónustu megi ná mun betri árangri, bæta lífsgæði fólks og nýta fjármuni betur.
Fyrirlestrar á þinginu voru fjölbreyttir þar sem m.a. var fjallað um víðtækt hlutverk heilsugæslunnar og fjölbreytt verkefni hennar, um nýmæli í þjónustu, hagnýtingu gervigreindar og margt fleira. Sjón er sögu ríkari og áhugasömum því bent á vefsvæði þingsins þar sem eru upplýsingar um fyrirlesarana og erindi. Þar er jafnframt upptaka frá þinginu og hægt að horfa og hlusta á erindin og líflegar pallborðsumræður sem þar fóru fram.
Bent Marinósson ljósmyndari fangaði stemninguna og má sjá svipmyndir frá því hér að neðan.