Hoppa yfir valmynd
2. desember 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Afdrif útskrifaðra kennara

Veruleg fjölgun varð á útskrifuðum kennurum frá árinu 2020 og er almenn ánægja með námið hjá þeim sem útskrifast. Hins vegar segir ríflega fimmtungur útskrifaðra að námið hafi ekki nýst þeim vel í starfi. Hlutfallið hefur verið nær óbreytt í áratug. Að jafnaði eru aðeins 5-10% sem starfa við annað en kennslu tveimur árum eftir útskrift.

Þetta er meðal þess sem má lesa úr niðurstöður könnunar um afdrif útskrifaðra kennara úr opinberum háskólum, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. Gögnunum hefur verið safnað í öllum opinberu háskólunum frá árinu 2013 og gefur færi á að ráðast í samanburð milli ára, sem og samanburð við aðrar faggreinar.

Ráðuneytið fól Félagsvísindastofnun að ráðast í slíkan samanburð í kjölfar vinnustofu um menntun kennara og þann vanda sem birtist í niðurstöðum PISA, sem fram fór í desember 2023. Á vinnustofunni komu glöggt fram áskoranir þeirra sem eru ábyrg fyrir kennaramenntun, vegna gagnaskorts og skorts á rannsóknum á grundvallaratriðum menntakerfisins. Fram kom að lítil vitneskja væri til um fagleg afdrif kennaranema eftir útskrift og þörf væri á því að kortleggja inntak kennaranáms.   

Í fyrrnefndri könnun voru viðhorf útskrifaðra nemenda til náms við kennaradeildir í HA og HÍ borin saman og skoðuð í samanburði við viðhorf útskrifaðra nemenda úr hjúkrunarfræði við HA og HÍ og ljósmóðurfræði við HÍ frá 2014 – 2022. Í niðurstöðum könnunarinnar var eingöngu skoðaður sá hópur sem öðlaðist kennsluréttindi. 

Átaksverkefni fjölgaði kennaranemum

Fimm ára átaksverkefni stjórnvalda til að fjölga kennurum hófst haustið 2019 sem fól meðal annars í sér hvatningarstyrki til kennaranema og launað starfsnám þeirra með það markmið að fjölga þeim sem velja kennaranám, helga sig náminu og útskrifast með kennsluréttindi. Jafnframt var lögð áhersla á að fjölga starfandi kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.

Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem tóku gildi í ársbyrjun 2020, höfðu þau áhrif á skipulag kennaranáms að kennaranemar hafa val um að ljúka kennsluréttindum með nýrri MT gráðu sem felur það í sér að nemendur geta lokið námi í formi valinna námskeiða í stað 30 eininga lokaverkefnis. Vorið 2020 voru skilyrði styrkveitinga endurskoðuð í samræmi við áherslur stjórnvalda um að fjölga kennurum og tóku ný skilyrði gildi í kjölfarið.

Myndin hér að neðan sýnir fjölda útskrifaðra kennara frá 2015. Punktalínan sýnir hvenær átak um kennaramenntun hófst og breytingar á lögum tóku gildi. Eins og sjá má fjölgaði þeim sem útskrifuðust með kennararéttindi umtalsvert með fyrrnefndri lagabreytingu.

Lítill hluti starfar við annað en kennslu eða skólastjórnun

Næsta mynd sýnir afdrif þeirra sem læra til kennsluréttinda við HÍ og HA borið saman við hjúkrunarfræði við sömu skóla. Ekki er að sjá að lagabreytingarnar hafi haft afgerandi áhrif á hlutfall þeirra sem starfa við sitt fag eftir útskrift en ljóst er að um 80-90% þeirra sem ljúka náminu starfa við sitt fag, eru í stjórnun eða foreldraorlofi. Að jafnaði eru einungis 5-10% sem starfa við annað tveimur árum eftir útskrift. 

Áhugavert að er sjá að samanburðarhópurinn, nemendur í hjúkrun, starfar að mestu við sitt fag eða er í foreldraorlofi. Óverulegur hluti starfar við annað. 

Lagabreytingarnar hafa ekki haft áhrif á viðhorf til kennaranámsins

Í könnuninni var jafnframt spurt hversu vel námið nýtist nýútskrifuðum kennurum í starfi í samanburði við meðaltal HÍ, meðaltal Menntavísindasviðs HÍ og meðaltal hjúkrunar- og ljósmóðurfræði. Fyrrgreindar lagabreytingar höfðu ekki afgerandi áhrif á þetta viðhorf og telja nýútskrifaðir áfram að námið þeirra nýtist vel, en þó síður en nemendur úr hjúkrunarfræði. Það vekur athygli að hlutfall þeirra sem segja námið nýtast vel í starfi hækkar ekki þrátt fyrir launað starfsnám í kennsluréttindanámi. Að jafnaði telja 80% nemenda í kennsluréttindanámi að námið þeirra hafi nýst vel í starfi, en hlutfallið er 90% meðal hjúkrunarfræðinema.

Mikilvægt innlegg fyrir framhaldið

Niðurstöðurnar bera með sér að lagabreytingarnar, sem tóku gildi 2020, hafi fjölgað kennaranemum, a.m.k. tímabundið, en þær hafi ekki haft afgerandi áhrif á viðhorf nýútskrifaðra til námsins. Ríflega fimmtungur telur að námið þeirra hafi ekki nýst vel sem undirbúningur fyrir störf í grunn- og framhaldsskólum þrátt fyrir launað starfsnám og telur ráðuneytið tilefni til að huga sérstaklega að þeim þætti.  

Jafnframt er talin þörf á fjölbreyttu og aðgengilegu námsframboði fyrir starfsþróun kennara. Ein forsenda þess að kennarar geti betur mætt samfélagslegum breytingum og sinnt fjölbreyttum hlutverkum sínum er símenntun. Með örnámi, sem er sveigjanlegt, stutt og sértækt nám, má auka framboð á faglegum stuðningi við nýútskrifaða kennara í skólum og stuðla að endurmenntun starfandi kennara. Nauðsynlegt er að háskólarnir séu í góðum tengslum við fagvettvanginn svo tryggt sé að námsframboðið svari þörfum kennara á vettvangi og er fjölbreytt sí- og endurmenntunarframboð á vegum háskóla ein leið til að treysta þau tengsl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta