Aukið norrænt samstarf á sviði borgaralegs og hernaðarlegs öryggis
Norrænir ráðherrar sem bera ábyrgð á almannavörnum funduðu í Osló á vegum Haga-samstarfsins og fjölluðu þar um aukið samstarf Norðurlanda á sviði borgaralegs og hernaðarlegs öryggis.
„Það er mikilvægt að Norðurlöndin byggi upp traustan grundvöll fyrir náið samstarf á sviði borgaralegs og hernaðarlegs öryggis yfir landamæri okkar. Með því að sameina krafta okkar getum við betur stutt við þjóðarvarnir, tryggt grunnstarfsemi samfélagsins og varið borgarana gegn aðsteðjandi hættum,” sagði Emilie Enger Mehl, norskur ráðherra dóms- og öryggismála, en Noregur hefur farið með formennsku í Haga-samstarfinu undanfarið ár.
Nú eru öll fimm Norðurlöndin aðilar að NATO og skapast með því forsendur fyrir auknu samstarfi á þessu sviði. Í síðustu viku funduðu varnarmálaráðherrar Norðurlanda sem hluti af samstarfi Norðurlanda á sviði varnar- og öryggismála (NORDEFCO). Þar var einnig lögð áhersla á mikilvægi norræns samstarfs á sviði borgaralegs viðbúnaðar og varnarmála til að styðja fælingarmátt NATO.
Óstöðugleiki á öðrum svæðum heims hefur einnig áhrif á öryggi Norðurlanda. Norðurlönd eru nátengd bæði landfræðilega, með sameiginleg gildi og hefðir, og glíma við margar af sömu áskorununum. Stríðið í Úkraínu hefur varpað ljósi á nýjar þarfir fyrir samstarf á sviði almannavarna. Undir forsæti Noregs hafa Norðurlöndin styrkt sameiginlegan skilning sinn á þörfinni fyrir borgaralegt og hernaðarlegt samstarf, samhæfingu og sameiginlega áætlanagerð.
Norrænt samstarf á sviði almannavarna og viðbúnaðar (Haga-ferlið) var stofnað árið 2009. Markmiðið er að efla styrk og seiglu Norðurlanda á þessu sviði með getu til að koma í veg fyrir, undirbúa sig fyrir, takast á við, endurheimta og læra af alvarlegum slysum og hamförum. Síðan 2013 hefur Haga-ferlið unnið að uppbyggingu sameiginlegrar getu Norðurlanda til að veita gagnkvæman stuðning.
Fundurinn á fimmtudag markaði lok formennsku Noregs í Haga-ferlinu. Finnland tekur við formennsku árið 2025, þegar Finnland gegnir einnig formennsku í NORDEFCO.