Hoppa yfir valmynd
2. desember 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norrænir ráðherrar sameina krafta sína gegn bakslagi í kynja- og hinsegin jafnrétti

Við undirritun yfirlýsingarinnar, Pushing for progress (Þrýst á framfarir). Paulina Brandberg, jafnréttis- og vinnumarkaðsráðherra Svíþjóðar sitjandi.  Í efri röð frá vinstri Arsim Zekaj, velferðar- og heilbrigðisráðherra Álandseyja, Sanni Grahn-Laasonen, velferðarráðherra Finnlands,  Erlend Kaldestad Hanstveit, jafnréttis- og menningarráðherra Noregs, Magnus Heunicke, jafnréttis- og umhverfisráðherra Danmerkur og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. - mynd

Norrænir ráðherrar á sviði kynja- og hinsegin jafnréttis hétu því að standa vörð um og halda áfram baráttu Norðurlandanna fyrir kynja- og hinsegin jafnrétti á árlegum fundi sínum í Stokkhólmi á dögunum. Fimm ráðherrar Norðurlandanna skrifuðu undir yfirlýsingu undir yfirskriftinni Pushing for progress (Þrýst á framfarir) um sameiginlegt átak Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði á fundinum. Bjarni Benediktsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, staðfesti þátttöku Íslendinga í yfirlýsingunni fyrir fundinn.

Í yfirlýsingu ráðherranna kemur fram að Norðurlandaþjóðirnar hafi staðið þétt saman í baráttunni fyrir kynja- og hinsegin jafnrétti í hálfa öld. Enda þótt margt hafi áunnist standi enn eftir þónokkrar áskoranir til þess að fullkomið jafnrétti óháð kyni og jafnrétti til handa hinsegin fólki hafi verið náð.

Fram kemur að ráðherrarnir hafi áhyggjur af bakslagi á sviði kynja- og hinsegin jafnréttis.  Þeir heiti því að standa vörð um árangur á þessu sviði og halda áfram baráttunni fyrir fullkomnu jafnrétti. „Við munum leitast við að mynda samstarf við fjölbreytta aðila til að efla alþjóðlegar óskir um áframhaldandi framfarir, hlusta á og læra af öðrum og standa vörð um kynjajafnrétti og jöfn réttindi hinsegin fólks. Við skorum á öll sem kalla eftir framförum að ganga til liðs við okkur,“ segir í yfirlýsingu ráðherranna.

Þá segir enn fremur að ráðherrarnir trúi því að með norrænu samstarfi tryggi Norðurlandaþjóðirnar að kynjajafnrétti eigi sinn sess í alþjóðlegri umræðu. Norðurlöndin skuldbindi sig til að halda á lofti alþjóðlegum viðmiðum til að stuðla að jöfnum rétti kvenna og stúlkna, kynjajafnrétti, kynheilbrigði, barneignarréttindum og jöfnum réttindum hinsegin fólks. Á fundinum var jafnframt staðfest samvinna ráðherranefndarinnar við Bill & Melinda Gates Foundation um verkefni á sviði jafnréttis.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta