Opnað fyrir tilnefningar til jafnréttisverðlauna í nafni Vigdísar Finnbogadóttur
Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til jafnréttisverðlauna í nafni Vigdísar Finnbogadóttur. Til verðlaunanna var stofnað í Reykjavík í maí 2023 í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins.
Að verðlaununum standa ríkisstjórn Íslands og Evrópuráðsþingið. Verðlaununum er ætlað að verðlauna einstakling eða samtök sem stuðla að eða styðja með framúrskarandi hætti við valdeflingu kvenna; hvort sem um er að ræða aðgerðir sem stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnari samfélagslegri þátttöku kvenna eða aðgerðir sem vekja athygli á ójafnri stöðu kvenna og hvetja til úrbóta.
Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrstu konunni sem var kjörin þjóðarleiðtogi í heiminum. Verðlaunaféð er 60.000 evrur og verða verðlaunin afhent í annað sinn í júní á næsta ári í Strassborg í Frakklandi. Í fyrra hlutu grísku grasrótarsamtökin Irida Women‘s Center verðlaunin að viðstöddum forseta Íslands, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fulltrúum Evrópuráðsþingsins o.fl.
Frestur til að skila inn tilnefningum er til 28. mars 2025 á netfangið [email protected] og notast skal við sérstakt eyðublað sem finna má á vef verðlaunanna.
Tilnefningar skulu vera undirritaðar af að lágmarki 5 aðilum og skilað inn annað hvort á ensku eða frönsku.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hvetur öll til þess að tilnefna framúrskarandi einstaklinga eða samtök sem viðkomandi telja að eigi skilið að fá verðlaun fyrir framúrskarandi störf í þágu kynjajafnréttis.
Nánari upplýsingar um verðlaunin á vef Evrópuráðsþingsins