Hoppa yfir valmynd
2. desember 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk flyst yfir til Mannréttindastofnunar

Af vef Réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem finna má á island.is. - mynd

Alþingi vinnur nú að því að koma á fót Mannréttindastofnun Íslands og mun Réttindagæsla fyrir fatlað fólk færast frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til stofnunarinnar. Breytingarnar eru taldar tryggja betur sjálfstæði réttindagæslunnar, enda mun nýja stofnunin meðal annars hafa eftirlit með því hvernig stjórnvöld uppfylla samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningar um persónulega talsmenn fyrir fatlað fólk munu þó ekki færast til Mannréttindastofnunar heldur flytjast yfir til sýslumanns.

Stjórn Mannréttindastofnunar sem skipuð var af Alþingi fyrir skemmstu mun auglýsa eftir og ráða framkvæmdastjóra en Mannréttindastofnun heyrir beint undir Alþingi. Stofnunin mun taka formlega til starfa þann 1. maí 2025 samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi 18. nóvember síðastliðinn. 

Alþingi frestaði gildistöku laga um Mannréttindastofnun um fjóra mánuði og samþykkti jafnframt bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið skuli tryggja samfellda þjónustu réttindagæslu fyrir fatlað fólk fram til 1. maí 2025. Réttindagæsla verður þannig áfram starfrækt á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins til 1. maí þegar hún flyst yfir til Mannréttindastofnunar. 

Fram til 1. maí verður opnunartími símaþjónustu hjá Réttindagæslu fyrir fatlað fólk sá sami og áður eða frá 9:00-16:00 alla virka daga og símanúmerið það sama og nú: 554 8100. Utan opnunartíma símaþjónustu getur fólk lesið inn skilaboð í talhólf, auk þess sem senda má erindi á [email protected] 

Lögin sem Alþingi samþykkti í vor um Mannréttindastofnun fela í sér að stofnunin mun auglýsa og ráða í stöður réttindagæslumanna. Störf núverandi réttindagæslumanna og annars starfsfólks Réttindagæslu fyrir fatlað fólk hafa því verið lögð niður frá og með 1. janúar nk. Til að brúa bilið frá áramótum og til 1. maí, vegna frestunar Alþingis á gildistöku laganna, mun félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ráða tímabundið til starfa sérfræðinga hjá Samskiptastöðinni sem hafa þekkingu og reynslu af málefnum og réttindum fatlaðs fólks og munu þeir starfa sem réttindagæslumenn á grundvelli laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. 

Hluti af verkefnum réttindagæslumanna mun sem fyrr segir færast yfir til sýslumanns um áramót og ákvað Alþingi að fresta ekki gildistöku þess ákvæðis. Frá 1. janúar nk. mun fatlaður einstaklingur því leita til sýslumanns við val á persónulegum talsmanni eða þegar afturkalla þarf umboð viðkomandi. 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta