Hoppa yfir valmynd
3. desember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Friðlýsingar afturkallaðar vegna dóms Hæstaréttar

Kerlingarfjöll - myndHugi Ólafsson

Hæstiréttur felldi þann 27. mars á þessu ári úr gildi friðlýsingu um verndarsvæði Jökulsár á Fjöllum frá 10. ágúst 2019 á þeim grundvelli að framkvæmd hennar hafi verið ólögmæt. Alþingi hefði ekki fjallað um afmörkun verndarsvæðisins líkt og lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, geri kröfu um. Var það niðurstaða Hæstaréttar að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi ekki verið heimilt að ákvarða friðlýsinguna, heldur hefði hann þurft að fara með nýja tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi með afmörkun verndarsvæðisins áður en hægt væri að friðlýsa svæðið.

Alls hafa átta svæði verið friðlýst með vísan til þess að virkjunarkostir innan þeirra hafi verið flokkaðir í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar. Svæðin sem um ræðir eru:

  • Jökulsá á Fjöllum. Friðlýst 10. ágúst 2019.
  • Geysir. Friðlýst 19. mars 2021. (Geysissvæðið var einnig friðlýst sem náttúruvætti 17. júní 2020)
  • Kerlingarfjöll. Friðlýst 19. mars 2021. (Kerlingarfjöll voru einnig friðlýst sem landslagsverndarsvæði 10. ágúst 2020)
  • Brennisteinsfjöll. Friðlýst 25. apríl 2020.
  • Gjástykki. Friðlýst 1. apríl 2020.
  • Hólmsá. Friðlýst 26. ágúst 2021.
  • Jökulfall og Hvítá. Friðlýst 16. september 2021.
  • Tungnaá. Friðlýst 30. ágúst 2021.

Allar ofangreindar friðlýsingar voru framkvæmdar á sömu forsendum, þ.e.a.s. virkjunarkostir innan viðkomandi verndarsvæða voru flokkaðir í verndarflokk áætlunarinnar, en Alþingi fjallaði ekki um afmörkun verndarsvæðanna eins og lög nr. 48/2011 kveða á um. Niðurstaða Hæstaréttar hefur því áhrif á lögmæti friðlýsinganna allra.

Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum var afturkölluð með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. júní sl. í kjölfar dóms Hæstaréttar. Þá var friðlýsing verndarsvæðis Gjástykkis afturkölluð sama dag, en landeigendur þess svæðis höfðu áður stefnt ríkinu fyrir dóm til greiðslu bóta vegna friðlýsingarinnar. Með dómi Hæstaréttar féllu málsástæður ríkisins niður og var friðlýsingin því afturkölluð.

Með hliðsjón af fordæmisgildi dómsins og meginreglum stjórnsýslulaga um afturkallanir ógildanlegra ákvarðana hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákveðið að afturkalla þær sex friðlýsingar verndarsvæða sem eftir standa. Eingöngu er um að ræða friðlýsingar á grundvelli verndarflokks verndar- og orkunýtingaráætlunar og hafa afturkallanirnar því ekki áhrif á friðlýsingu Geysis sem náttúruvættis eða Kerlingarfjalla sem landslagsverndarsvæðis.

Virkjunarkostirnir sem friðlýsing verndarsvæðanna byggði á voru flokkaðir í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar með ályktun Alþingis nr. 13/141, sem samþykkt var 14. janúar 2013. Þann 15. júní 2022 samþykkti Alþingi nýja ályktun nr. 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í þeirri ályktun er ekki að finna þá virkjunarkosti eða landsvæði sem friðlýst höfðu verið á grundvelli áætlunar nr. 13/141, enda var málsmeðferð þeirra virkjunarkosta lokið með friðlýsingu þeirra. Í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011 munu áðurnefndir virkjanakostir  lúta sömu reglum og virkjunarkostir í biðflokki áætlunarinnar. Til að bæta úr þeim ágalla við friðlýsingarferlið sem rakinn er í dómi Hæstaréttar þurfa kostirnir því að fara aftur í gegnum ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar og Alþingi þarf að flokka þá í verndarflokk með afmörkuðu verndarsvæði til að hægt sé að friðlýsa þá aftur. Afturköllun friðlýsinga svæðanna hefur því ekki þá þýðingu að hægt sé að ráðast í virkjunarframkvæmdir innan þeirra. 

Ráðherra mun nú beina því til verkefnisstjórnar að taka umrædda virkjunarkosti aftur til mats í samræmi við ákvæði laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þegar tillögur verkefnisstjórnar liggja fyrir mun Alþingi síðan fá þá til afgreiðslu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Aðalatriðið í þessu máli er að það er enginn að fara að virkja á Geysi, í Kerlingarfjöllum eða innan þessara svæða. Í kjölfar afturkallananna munum við einfaldlega beina því til verkefnisstjórnar að taka þessa virkjunarkosti aftur til mats svo Alþingi geti tekið þá til þinglegrar meðferðar með það að lokamarkmiði að verndarsvæðin verði friðlýst aftur á lögmætan hátt þegar bætt hefur verið úr ágalla friðlýsinganna.“

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta