Hoppa yfir valmynd
3. desember 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rannsókn á örorkulífeyri karla og kvenna

Velferðarvaktin, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnueftirlitið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið munu standa saman að rannsókn á örorkulífeyri karla og kvenna. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands mun framkvæma rannsóknina, en í henni verður leitað svara við því hvers vegna konur á aldrinum 50 til 66 ára eru líklegri en karlar til að fá örorkulífeyri.

Flestir með örorkulífeyri á Íslandi eru konur yfir fimmtugt. Í sumum aldursbilum eftir fimmtugt er hlutfall kvenna með örorkumat hátt. Til dæmis er ein af hverjum fjórum konum á aldrinum 63 til 66 ára á Íslandi á örorkulífeyri. Ekki er vitað hvað veldur þessu háa hlutfalli. Rannsaka á stöðu þessa hóps og hvað hugsanlega liggi að baki því að svo stór hluti kvenna á þessum aldri dettur út af vinnumarkaði. Fjöldi fólks á örorkulífeyri á síðasta ári var 5,3%, sem er nánast sama hlutfall og var árið 2013.

Í rannsókninni verður gagna aflað með spurningakönnun meðal fólks yfir fimmtugu sem hefur fengið örorkumat á undangengnum þremur árum 2021, 2022 og 2023 og meðal kvenna sem skráðar eru í netpanel Félagsvísindastofnunar. Í lok rannsóknar verða niðurstöður birtar í ítarlegri skýrslu þar sem greint verður hvort munur sé á reynslu og bakgrunni karla og kvenna með örorkulífeyri og hvort munur sé á reynslu og bakgrunni kvenna með örorkumat og þeirra sem tilheyra netpanel Félagsvísindastofnunar.

Undirbúningur rannsóknarinnar er á lokastigi og verður könnunin send út til þátttakenda í janúar 2025. Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir á næstu vormánuðum og verður hún þá kynnt formlega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta