Friðlýsing minja að Hólmi og miðlun á merkri sögu rafvæðingar
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest friðlýsingu Hólms í Skaftárhreppi, en friðlýsingin var gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands. Friðlýsingin tekur til heimarafstöðvar og stíflu (byggð 1938); byggingar sem hýsti m.a. járnsmíðaverkstæði, frystihús og sláturhús (1930), íbúðarhúss (1930) og smíðaskóla (1946).
Í rökstuðningi Minjastofnunar Íslands með friðlýsingartillögu kemur fram að Hólmur hafi gegnt mikilvægu hlutverki í sögu rafvæðingar á Íslandi ásamt þróun trésmíðanáms í dreifbýli á 20. öldinni. Mannvirkin á Hólmi sem nú hafa verið friðlýst hafi ennfremur varðveist nánast óbreytt með verkfærum og búnaði og er menningarsögulegt gildi þeirra einstakt með tilliti til tæknisögu landsins og byggðasögu héraðsins.
Hólmur í Skaftárhreppi. Ljósmynd/Minjastofnun Íslands
Að Hólmi bjó Bjarni Runólfsson (1891-1938), sem var kunnur vélsmiður og hugvitsmaður, og brautryðjandi í rafvæðingu íslenskra sveita. Fyrstu rafstöð sína setti hann upp árið 1921 en alls setti hann upp ríflega 100 rafstöðvar fyrir einkaheimili víðs vegar um land og smíðaði túrbínur í þær flestar. Uppsett afl var samtals 813,2 kW og virkjanir sem Bjarni smíðaði voru í 11 sýslum, eða í nærri helmingi sýslna þess tíma.
Að Hólmi byggði Bjarni íbúðarhús, fullkomið járnsmíðaverkstæði með eldsmiðju og reisti þar að auki frystihús. Bjarni féll frá árið 1938. Eftir fráfall Bjarna rak bróðir hans, Valdimar Runólfsson trésmiður, smíðaskóla að Hólmi á árunum 1945-1963, og er hann talinn fyrsti skóli sinnar tegundar á landinu. Síðasti ábúandinn á Hólmi, Sverrir Valdimarsson, lést árið 2021.
Fyrir nokkrum árum hófst undirbúningur að því að gera Hólm í Landbroti að verndarsvæði í byggð, en þeirri vinnu er ekki lokið. Í tengslum við þá vinnu hefur verið gerð fornleifaskráning, úttekt á húsakosti og framkvæmt mat vegna nauðsynlegra viðgerða.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Saga og minjar um rafvæðingu í sveitum landsins er stórmerkileg og mér hugleikin sem ráðherra minja- og orkumála. Brautryðjendur rafvæðingar voru nokkrir, en að öðrum ólöstuðum verður fyrst að nefna Bjarna Runólfsson á Hólmi í Landbroti, sem féll frá langt fyrir aldur fram. Saga hans er vel varðveitt að Hólmi og í smiðjunni er enn umhorfs eins og menn hafi rétt brugðið sér af bæ. Við verðum að varðveita og miðla á sómasamlegan hátt þessu framtaki sem færði sveitir landsins til nútíma og jók lífsgæði fólks svo um munaði.“