Samningar um óstaðbundin störf á landsbyggðinni
Arnar Már Elíasson forstjóri Byggðastofnunar og Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar undirrituðu í gær samninga um styrki vegna óstaðbundinna starfa. Annars vegar er um ræða starf sem staðsett verður í húsnæði Sýslumannsins á Húsavík og hins vegar starf sem staðsett verður í vinnustaðaklasanum Útibúinu á Hvammstanga. Samningarnir voru undirritaðir á Húsavík.
Samningarnir eru gerðir á grundvelli byggðaáætlunar, aðgerðar B.7 um óstaðbundin störf. Markmið aðgerðarinnar er að efla búsetufrelsi með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni. Aðgerðin felur í sér að ríkisstofnanir sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrki vegna nýrra starfa utan svæðisins eða starfa sem verða færð frá höfuðborgarsvæðinu frá 1. nóvember 2024. Styrkjum er ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum. Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið tveimur milljónum króna á ári.
Styrkirnir voru auglýstir í október sl. Samningarnir sem undirritaðir voru í gær eru þeir fyrstu en jafnframt hafa verið samþykktir styrkir vegna þriggja annarra starfa. Þau eru starf skjalavarðar Þjóðskjalasafns Íslands, staðsett í Neskaupstað, starf lögfræðings hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, staðsett í Suðurnesjabæ og starf sérfræðings hjá Embætti landlæknis, staðsett á Akranesi.
- Sjá nánar í frétt ráðuneytisins þegar styrkirnir voru auglýstir (10. október 2024)