Hoppa yfir valmynd
5. desember 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýtt vefviðmót um laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu

Út er komið vefviðmót um laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu á vegum Eurydice-samstarfsins. Með vefviðmótinu er hægt að bera saman kjarasamningsbundin laun og heildarlaun kennara og skólastjórnenda í Evrópu 2022–2023 m.t.t. kaupmáttar í þátttökuríkjunum, menntunar og starfsreynslu.

Byrjunarlaun leik-, grunn- og framhaldsskólakennara á Íslandi eru í heildina yfir meðaltali Evrópuríkja en laun eldri leik- og grunnskólakennara eru hins vegar undir meðaltalinu.

Vefviðmótið er afrakstur gagnaöflunar á launum leik-, grunn- og framhaldsskólakennara og skólastjórnenda sem framkvæmd var í 37 þátttökuríkjum Eurydice-samstarfsins fyrr á þessu ári.

Eurydice-samstarfið er samstarf evrópskra aðila á sviði menntamála. Tilgangur samstarfsins er að veita stefnumótandi aðilum og öllum þeim sem hafa áhuga á menntamálum, áreiðanlegar og samanburðarhæfar upplýsingar um menntakerfi í Evrópu. Mennta- og barnamálaráðuneytið er með samstarfssamning við Eurydice um gagnaöflun og -afhendingu fyrir hönd Íslands og birtingu niðurstaðna rannsókna Eurydice.

Laun kennara á Íslandi

Kjarasamningsbundin laun kennara eru sambærileg í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þegar horft er til raunlauna breytist myndin nokkuð. Heildarlaun í leikskóla eru að meðaltali lítið hærri en það lágmark sem tiltekið er í kjarasamningum, en heildarlaun í grunnskólum eru nokkru hærri en fram kemur í kjarasamningum og heildarlaun í framhaldsskólum umtalsvert hærri.

Myndin að ofan ber saman mánaðarlaun kennara eftir skólastigum og starfsreynslu. Annars vegar eru sýnd kjarasamningsbundin laun (vinstri helmingur myndar) og hins vegar meðaltal heildarlauna (hægri helmingur). Kjarasamningsbundin laun eru sýnd annars vegar fyrir einstakling án starfsreynslu og hins vegar fyrir einstakling með 15 ára starfsreynslu. Heildarlaun eru flokkuð eftir lífaldri starfsmanna en ekki starfsaldri og því ekki unnt að notast við sömu flokkun og gert er með kjarasamningsbundnu launin. Í staðinn er notast við yngsta aldursbilið annars vegar (minni starfsreynsla) og elsta aldursbilið hins vegar (meiri starfsreynsla).

Samanburður á launum kennara milli landa

Til að gera laun samanburðarhæf þarf að taka tillit til mismunandi gengis gjaldmiðla og verðlags milli landa. Evrópska hagstofan notast við gervigjaldmiðilinn PPS (e. Purchasing Power Standard) við slíkan samanburð þar sem hver eining af PPS getur keypt sama magn vara og þjónustu í hverju landi. Samanburður á kaupmáttarjöfnuðum heildarlaunum kennara á Íslandi við önnur Norðurlönd og meðaltal Evrópuríkja sýnir eftirfarandi:

Leikskólakennarar

Heildarlaun leikskólakennara hérlendis (25–64 ára) eru í kringum meðaltal Norðurlanda (hærri en í Finnlandi og Svíþjóð en lægri en í Noregi og Danmörku) og svipuð meðaltali Evrópuríkja eins og sjá má á eftirfarandi mynd:

Grunnskólakennarar

Heildarlaun grunnskólakennara hérlendis (25–64 ára) eru rétt undir meðaltali Norðurlanda (hærri en í Svíþjóð, en lægri en í Noregi, Danmörku og Finnlandi). Byrjunarlaun kennara á Íslandi (þ.e. laun yngri kennara) eru hærri hérlendis en að meðaltali í Evrópu en laun eldri kennara eru aftur á móti lægri hér – sjá næstu tvær myndir. Því er minni munur á launum kennara sem hafa starfað í skemmri og lengri tíma hér en víða annars staðar. Grunnskólastiginu er skipt í yngra stig og unglingastig. Ekki er munur á launum milli þessara stiga hérlendis en í Evrópu eru að meðaltali örlítið hærri laun á unglingastigi.

Framhaldsskólakennarar

Heildarlaun framhaldsskólakennara hérlendis (25–64 ára) eru rétt yfir meðaltali Norðurlanda (hærri en í Noregi og Svíþjóð, svipuð og í Finnlandi en lægri en í Danmörku) og nokkru hærri en að meðaltali í Evrópu. Laun yngri kennara hérlendis eru hærri en yngri kennara í Evrópu en töluvert hefur dregið saman með hópunum þegar skoðuð eru laun eldri kennara.

Gögnum um laun og kjör kennara á Íslandi var safnað í samstarfi við haghafa, meðal annars Kennarasamband Íslands og Hagstofu Íslands. Um er að ræða samstarfsverkefni OECD og ESB í gegnum NESLI og Eurydice-samstarfið. Ítarlegri upplýsingar um laun og þátttökuríki má nálgast í vefviðmóti Eurydice.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta