Hoppa yfir valmynd
5. desember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tæplega 900 milljónum úthlutað til uppbyggingar innviða

Samgöngubryggja við Hestseyri, sem er í nágrenni þjónustuhússins í Hornstrandafriðlandinu. - mynd

Úthlutað verður um 899 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á þessu ári til uppbyggingar innviða, en áætlunin hefur verið samþykkt af Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til áætlunarinnar á næstu þremur árum.

Í Landsáætlun um uppbyggingu innviða er sett fram forgangsröðun verkefna varðandi viðhald og bætt ástand staða sem eru undir álagi af völdum ferðamennsku. Áætluninni er einnig ætlað að stuðla að markvissri, vel ígrundaðri og heildstæðri uppbygging staða, svæða og leiða. Í skýrslu verkefnaáætlunar um Landsáætlun um uppbyggingu innviða má finna lista yfir verkefni næstu þriggja ára. Á áætlun áranna 2024-2026 eru 102 verkefni á skilgreindum stöðum, svæðum og leiðum. Þar af eru 62 ný verkefni en verkefni á áætluninni lúta m.a. að göngustígum, bættum merkingum og umbótum á bílastæðamálum. Af einstökum stöðum má nefna sem dæmi Geysi í Haukadal, þar sem umfangsmestu framkvæmdir á vegum landsáætlunar fara nú fram. Einnig liggja bráðaaðgerðir ársins nú að miklu leyti fyrir, en óhagstætt tíðarfar hefur leitt til mikillar aukningar slíkra verkefna og er mikilvægt að landsáætlunin geti brugðist hratt við.

Kortasjá

Landmannalaugar

Landmannalaugar. Pallur fyrir baðgesti sem hefur aukið öryggi og bætt aðstöðu gesta. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Á grundvelli staðlaðra hönnunarlausna og svæðismats skapast tækifæri fyrir sameiginleg útboð margra smærri verkefna, á einu eða fleiri svæðum, sem annars væru undir viðmiðum um hefðbundna útboðsskyldu. Slíkt skilar okkur hagkvæmni en gefur einnig fleiri aðilum, ekki síst í heimabyggð, tækifæri til að koma að uppbyggingu og jafnvel rekstri innviða. Með því að horfa heildstætt á uppbyggingu og stækka mengi verkefna er hægt að stuðla að aukinni þátttöku í útboði. Við þurfum að vera opin fyrir nýjum leiðum og hugsa til lengri framtíðar, og því gætu samvinnuverkefni einnig flýtt fyrir uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum og aukið hagkvæmni.“

Verkefnaáætlun Landsáætlunar um uppbyggingu innviða hefur verið uppfærð sex sinnum frá því að hún kom fyrst út og gildir núverandi áætlun til 2026. Forgangsröðun og tillögugerð verkefnisstjórnar var með hefðbundnum hætti, en í vetur bættist við heildstæð rýni og forgangsröðun Verkefnastofu á tillögur stofnana ráðuneytisins, sem undirbyggði tillögugerðina enn frekar.

Aukin áhersla á forskriftir

Í uppfærðri áætlun er aukin áhersla lögð á forskriftir og staðlað verklag svo þróa megi með því og nýta staðlaðar hönnunarlausnir sem geta nýst víðar. Vegrúnar-verkefnið, sem snýr að vönduðum, samræmdum merkingum á ferðamannastöðum sem standast íslenskar aðstæður, er gott dæmi um staðlaða lausn.

Þá hefur aukin áhersla verið lögð á góð gögn um staði á landsáætlun, sem grunn að vandaðri forgangsröðun, árangursmælikvörðum og mati á innviðaþörf svo greina megi þörfina hlutlægar í samhengi 12 ára áætlunarinnar.

Dyhólaey

Dyrhólaey. Göngustígar á Háey.

Í þingsályktun um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029 ályktaði Alþingi að á árunum 2018–2029 yrði unnið að uppbyggingu innviða í samræmi við áætlunina og markmið hennar. Þriggja ára verkefnaáætlun er hluti tólf ára áætlunarinnar og rúmast innan hennar.

Verkefnaáætlun 2024-2026


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta