Hoppa yfir valmynd
5. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Uppfærslu fríverslunarsamnings við Úkraínu lokið

Viðræðum um uppfærslu á fríverslunarsamningnum við Úkraínu var ýtt úr vör á ráðherrafundi EFTA í júní 2023. - myndEFTA

Ísland náði í vikunni samkomulagi við Úkraínu um uppfærslu fríverslunarsamnings sem verið hefur í gildi milli ríkjanna frá árinu 2012. Ísland leiddi samningaviðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna sem einnig telja Liechtenstein, Noreg og Sviss. Með samningnum styðja EFTA ríkin við efnahagsstefnu Úkraínu sem miðar að aukinni samþættingu við markaði Vestur-Evrópu. Uppfærslan felur einnig í sér stuðningsyfirlýsingu við Úkraínu á tímum innrásarstríðs Rússlands.

„Ísland hefur um skeið beitt sér fyrir uppfærslu samningsins og með henni sýnum við í verki stuðning Íslendinga við Úkraínu. Markmiðið er að aukin efnahags- og viðskiptatengsl styðji sérstaklega við viðnámsþol Úkraínu og þegar fram líða stundir enduruppbyggingu og langtímavöxt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Uppfærður samningur kveður á um bætt markaðskjör fyrir vöruviðskipti milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu. Markaðsaðgangur sem Ísland veitir Úkraínu fyrir landbúnaðarvörur er í samræmi við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert á vettvangi EFTA. Nýmæli í samningnum eru reglur um rafræn viðskipti, lítil- og meðalstór fyrirtæki og sjálfbær viðskipti. Reglur samningsins um vöruviðskipti, opinber innkaup, viðskiptaliprun og vernd hugverka eru þá uppfærðar til samræmis við nýja tíma og þróun á sviði alþjóðaviðskipta.

Stefnt er að því að undirrita uppfærðan samning á fyrri hluta næsta árs en hann mun taka gildi þegar Ísland og Úkraína hafa lokið fullgildingarferli sínu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta