Hoppa yfir valmynd
6. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður unglingsmæður í Úganda og börn þeirra

Margarita Tileva, næstráðandi UNICEF í Úganda, Robin Nandy, yfirmaður UNICEF í Úganda, Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda og Sveinn H. Guðmarsson, sendiráðunautur. - myndEdmond Mwebembezi/UNICEF

Ísland er bakhjarl nýs verkefnis Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) um stuðning við unglingsmæður og börn þeirra í Úganda. Verkefnið ber yfirskriftina „Valdefling unglingsmæðra og barna þeirra – tveggja kynslóða nálgun“. Þar verður sjónum beint að unglingsmæðrum í tveimur héruðum í vesturhluta landsins, Kyegegwa og Kikube, og þær aðstoðaðar við að brjótast úr fátækt um leið og ung börn þeirra fá þjónustu sem stuðlar að þroska þeirra og framförum.

„Ein af hverjum fjórum unglingsstúlkum í Úganda á aldrinum 15-19 ára er annað hvort þunguð eða er þegar orðin móðir og mörg dæmi eru um ennþá yngri stúlkur sem eignast börn. Þessum hópi er sérstaklega hætt við að festast í fátæktargildru sem erfist síðan frá einni kynslóð til annarrar. Með þessu verkefni leggjum við okkar af mörkum til að rjúfa þennan ömurlega vítahring og við erum stolt af því að gera það í samvinnu við UNICEF,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Verkefnatíminn er eitt og hálft ár og verður á tímabilinu einni milljón bandaríkjadala, jafnvirði 137 milljóna króna, varið til að bæta hag ungra mæðra í héruðunum tveimur. Eitt þúsund unglingsmæður fá beinan fjárstuðning til að hefja aftur nám í skóla eða afla sér hagnýtrar verkkunnáttu og tvö þúsund börn á aldrinum 0-5 ára fá leikskólaþjónustu og annan stuðning. Þá verður með verkefninu einnig unnt að sinna foreldrafræðslu, skimun fyrir fötlunum og þroskaskerðingum og bæta fæðingarskráningu sem þúsundir mæðra og barna njóta góðs af. Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, undirritaði samninginn við UNICEF fyrir Íslands hönd. 

„Ísland hefur um árabil átt í árangursríku samstarfi við UNICEF í Úganda um uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í flóttamannabyggðum í norðurhluta landsins en þetta verkefni er af allt öðrum toga og markar því tímamót. Með þessum stuðningi erum við að byggja til framtíðar fyrir ungar mæður og börn þeirra. Í verkefninu er líka innbyggður hvati fyrir mæðurnar til að nýta sér alla þætti þess því hluti framlagsins til þeirra er greiddur út að því loknu sem þær geta þá notað til að skapa sér tækifæri til varanlegrar tekjuöflunar,“ segir Hildigunnur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta