Hoppa yfir valmynd
9. desember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Hvítbók um lyfjafræðilega þjónustu í apótekum

Heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum starfshópsins sem vann skýrsluna - mynd

Birt hefur verið skýrsla starfshóps sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að skrifa hvítbók um stöðumat lyfjafræðilegrar þjónustu í apótekum í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar og gera tillögur að úrbótum. Skýrslan er nú til umsagnar í samráðsgátt og er umsagnarfrestur til 6. janúar næstkomandi.

Lyfjafræðileg þjónusta felst í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu sem lyfjafræðingar veita, umfram hefðbundna lyfjaafgreiðslu, með persónulegri ráðgjöf og stuðningi við sjúklinga. Þjónustan miðar að því að hámarka árangur lyfjameðferða, minnka sóun, bæta meðferðarheldni, draga úr lyfjatengdum vandamálum og auka öryggi sjúklinga. Þessi þróun hefur átt sér stað víða erlendis og skilað góðum árangri, líkt og fram kemur í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar benda á að samfélagsleg þörf sé fyrir aukna lyfjafræðilega þjónustu. Lyfjanotkun og fjöllyfjanotkun fari vaxandi samfara öldrun þjóðarinnar, lyfjameðferðir verði flóknari og líkur á lyfjatengdum atvikum aukist að sama skapi. Með auknu hlutverki lyfjafræðinga í heilbrigðisþjónustu þar sem menntun þeirra og þekking er betur nýtt, megi draga úr álagi annars staðar í heilbrigðiskerfinu og efla þjónustu við notendur.

Störf lyfjafræðinga hafa breyst undanfarna áratugi og menntun þeirra sömuleiðis. Um leið og lyfjaframleiðsla hefur dregist saman og nánast horfið úr apótekum hefur aukin áhersla verið lögð á klíníska menntun lyfjafræðinga. Á síðustu misserum hefur verið ráðist í afmörkuð verkefni hér á landi þar sem lyfjafræðingum eru falin aukin verkefni. Þar má nefna tilraunaverkefni um bólusetningar í apótekum og frumkvöðlaverkefni um nýja þjónustu við einstaklinga sem vilja aðstoð við að draga úr eða hætta notkun sterkra verkjalyfja, svefn- og róandi lyfja.

Með hvítbók um lyfjafræðilega þjónustu í apótekum er hafið samtal um framtíðarsýn lyfjafræðilegrar þjónustu á Íslandi og lagðar til áfangaskiptar tillögur um aðgerðir til að innleiða lyfjafræðilega þjónustu í apótekum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta