Úkraína og hlutverk ÖSE í öryggismálum í Evrópu í forgrunni ráðherrafundar ÖSE
Stuðningur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) við Úkraínu og hlutverk stofnunarinnar í öryggismálum í Evrópu og alþjóðlegum aðgerðum til að byggja upp og viðhalda friði voru á meðal umræðuefna á árlegum ráðherrafundi ÖSE sem fór fram á Möltu 5. og 6. desember. Malta hefur gegnt formennsku í ÖSE á þessu ári en Finnland tekur við formennskukeflinu á nýju ári.
Í ávarpi sínu á fundinum fordæmdi fastafulltrúi Íslands alvarleg brot Rússlands á alþjóðalögum með allsherjarinnrás sinni í Úkraínu og gagnrýndi framgöngu þeirra innan stofnunarinnar harðlega. Þá fjallaði hún um alvarlegt mannréttindaástand í Belarús og þróun mála í Georgíu.
Eftir langvarandi samningaviðræður náðist samstaða um skipan í lykilstjórnendastöður stofnunarinnar skömmu fyrir ráðherrafundinn. Nýr framkvæmdastjóri ÖSE er Feridun Sinirlioglu frá Tyrklandi. Í aðrar stöður voru skipuð Christophe Kamp frá Hollandi í stöðu fulltrúa fyrir minnihlutahópa, Maria Telalian frá Grikklandi í stöðu framkvæmdastjóra ODIHR og Norðmaðurinn Jan Braathu í stöðu fyrir frelsi fjölmiðla. Ekki náðist samkomulag á ráðherrafundinum um fjárhagsáætlun stofnunarinnar og verður áfram unnið að því máli.
Ísland tók undir nokkrar sameiginlegar yfirlýsingar, meðal annars yfirlýsingu vinahóps lýðræðisafla í Belarús og yfirlýsingu vinahóps Georgíu, yfirlýsingu um konur, frið og öryggi, yfirlýsingu um mannréttindi og grundvallarréttindi, yfirlýsingu Atlantshafsbandalagsríkja í ÖSE og yfirlýsingu um illviljaðar aðgerðir Rússlands. Þá var flutt sameiginleg yfirlýsing Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og líkt þenkjandi ríkja um hvernig tryggja megi að ÖSE geti áfram þjónað tilgangi sínum til að auka öryggi í Evrópu í samræmi við skuldbindingar aðildarríkja ÖSE.
Ísland studdi einnig hliðarviðburð sem fulltrúi ÖSE í baráttunni gegn mansali efndi til um framlag lítilla ríkja til að uppræta mansal í Evrópu. Meðal þátttakenda í hliðarviðburðinum var Hildur Sunna Pálmadóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna áttu fund með utanríkisráðherra Armeníu, þar sem meðal annars var rætt um að styrkja tengslin milli Armeníu og Evrópuríkja í ljósi innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu.
Helga Hauksdóttir, sendiherra og fastafulltrúi gagnvart ÖSE í Vín, sótti ráðherrafundinn fyrir Íslands hönd í fjarveru ráðherra.