Hoppa yfir valmynd
11. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Fjármögnun þróunarsamvinnu í brennidepli á stjórnarfundi Þróunarseturs OECD

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur ávarp Íslands. - myndHervé Cortinat

Fjármögnun þróunarsamvinnu og græn og réttlát orkuskipti voru efst á baugi á stjórnarfundi Þróunarseturs Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD Development Centre) sem lauk í París í gær. Einn helsti tilgangur þróunarsetursins er að skapa vettvang fyrir samráð ríkari framlagsríkja og viðtökuríkja þróunaraðstoðar á jafningjagrundvelli og veita tækifæri til að skapa verkefni og lausnir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. 

„Breytt heimsmynd með aukinni tíðni átaka, auknum viðskiptahindrunum og loftslagsvá hefur haft gífurlegar afleiðingar fyrir heimshagkerfið og bitnar hvað verst á fátækustu ríkjum heims. Þess vegna er uppbyggilegt samtal um leiðir til að takast á við stærstu áskoranir þróunarríkja nauðsynlegt svo hægt sé að ná árangri,“ segir Þórdís Kolbrún.

Á stjórnarfundinum koma saman ráðherrar og háttsettir embættismenn aðildarríkja þróunarsetursins og ræða áskoranir og málefni líðandi stundar, fara yfir árangur frá síðasta fundi og ræða það sem framundan er. Að þessu sinni fór jafnframt fram sérstök umræða um mótun nýrrar heildrænnar stefnu OECD um þróunarmál. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Íslands, opnaði fundinn en hún gegnir stöðu framkvæmdastjóra þróunarsetursins.

  • Hópurinn sem tók þátt í stjórnarfundi Þróunarseturs OECD. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta