Hoppa yfir valmynd
11. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg vinnustofa Íslands og Írlands um öryggi sæstrengja

Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneyti Írlands stóðu sameiginlega að tveggja daga vinnustofu sérfræðinga um öryggi sæstrengja dagana 3.-5. desember. Vinnustofan, sem fór fram á Írlandi, var haldin með stuðningi sjóðs Atlantshafsbandalagsins, Vísindi í þágu friðar og öryggis.  

Markmið vinnustofunnar var að dýpka samstarf og efla umræðu um öryggi og viðnámsþol mikilvægra neðansjávarinnviða með áherslu á fjarskiptastrengi. Á vinnustofunni ræddu sérfræðingar nýjustu vendingar, helstu áskoranir og áfallastjórnun hvað neðansjávarinnviði varðar, með áherslu á stöðu Íslands og Írlands. Þá skiptust þátttakendur á reynslu og bestu starfsvenjum þegar kemur að því að auka öryggi neðansjávarinnviða og bregðast við áföllum.  

Þátttakendur voru á sjötta tug frá 15 ríkjum í og við Norður-Atlantshaf, þar á meðal fulltrúar opinberra stofnana, Atlantshafsbandalagsins, fræðasamfélagsins og einkageirans sem vinna að þessum mikilvægu málum.

„Sæstrengir eru ein af grunnstoðum nútímasamfélaga, ekki síst fyrir eylönd á borð við Ísland og Írland. Öryggi og viðnámsþol þessara mikilvægu innviða krefst samstarfs milli ríkja og meðal stjórnvalda, einkageirans sem á og rekur innviðina og fræðasamfélagsins. Með því að bæta sameiginlegan skilning á því sem á sér stað í hafinu í kring um okkur getum við bætt öryggi neðansjávarinnviða og brugðist betur við mögulegum áföllum og er þessi vinnustofa mikilvægur liður í því,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Frá Íslandi tóku þátt fulltrúar utanríkisráðuneytisins, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Landhelgisgæslunni, Fjarskiptastofu, netöryggissveitinni CERT-IS, FARICE og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. 

Á meðan flestar skemmdir á sæstrengjum eru af völdum náttúruafla eða slysa hafa versnandi öryggishorfur í heiminum varpað ljósi á mögulega hættu á því að óprúttnir aðilar eigi við eða valdi skemmdum á þessum innviðum. Með því að leiða helstu hagaðila saman til að ræða þetta sameiginlega hagsmunamál vonast Ísland og Írland til að efla öryggi og viðnámsþol neðansjávarinnviða og leggja sitt af mörkum til svæðisbundinnar og alþjóðlegrar umræðu um þessi mál.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta