Hoppa yfir valmynd
16. desember 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nítján verkefni hljóta stuðning úr þriðja Samstarfi háskóla

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ásamt mannauðs- og gæðastjóra LBHÍ, aðstoðarrektor Háskólans á Hólum, rektor HR, rektor LHÍ og rektor HÍ. Á myndina vantar fulltrúa Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst.  - myndLjósmynd: Sigurjón Sigurjónsson

Nám í hamfarafræði, rannsóknamiðstöð sjálfsvíga og hátæknilandbúnaður eru meðal þeirra 19 verkefna sem hlutu stuðning úr þriðju úthlutun Samstarfs háskóla. Samanlagt hljóta verkefnin um 893 milljónir króna til að stuðla að auknu samstarfi milli háskóla á Íslandi með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og bæta samkeppnishæfni háskólanna. Nú sem fyrr er Samstarf háskóla þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins fyrir 2024, en nýting safnliðsins með þessum hætti síðustu ár hefur stóraukið gagnsæi og yfirsýn yfir fjárveitingar til háskóla á Íslandi.

„Samstarf háskóla hefur markað þáttaskil í starfsemi háskóla á Íslandi. Það hefur ekki aðeins getið af sér nýjar námsbrautir, eflt innviði og bætt nýtingu þeirra heldur hefur Samstarfið jafnframt stuðlað að einhverri stærstu breytingu á starfsumhverfi háskóla á síðari árum. Nú eru yfirstandandi sameiningarviðræður milli fjögurra háskóla og mér er til efs að þær hefðu hafist ef ekki væri fyrir þetta verkefni og fjárhagslega hvata,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem greindi frá úthlutuninni í dag.

Opnað var fyrir umsóknir í þriðja Samstarf háskóla 28. júní síðastliðinn og var umsóknarfrestur til 15. október. 42 umsóknir bárust að þessu sinni fyrir um 2,7 milljarða króna, en sem fyrr segir hlutu 19 verkefni samanlagðan 893 milljóna stuðning. Litið var til fjögurra megináherslna við val á verkefnum:

  1. Sameiningu háskóla og áframhaldandi uppbyggingu háskólasamstæðu.
  2. Rannsóknainnviði með áherslu á opin og ábyrg vísindi og uppbyggingu gagnainnviða sem stuðlað geta að ábyrgri þróun gervigreindar.
  3. Aukinn sveigjanleika í námi og möguleika nemenda til þess að púsla saman mismunandi námskeiðum til að öðlast ákveðna hæfni.
  4. Alþjóðasamstarf sem er til þess fallið að styðja við stafræna þróun, grænar áherslur, samfélagslegar áskoranir, samkeppnishæfni og sókn í erlenda sjóði.

Sjö verkefni sem hlutu stuðning voru flokkuð undir þriðja liðinn, aukinn sveigjanleika í námi. Fimm verkefni lúta að bættum rannsóknarinnviðum og sex stuðla að auknu alþjóðasamstarfi. Eitt verkefni lýtur að sameiningu háskóla, en það er áframhaldandi stuðningur við undirbúning háskólasamstæðu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. Þetta verkefni hlaut jafnframt hæsta stuðninginn að þessu sinni eða 170 milljónir króna, sem er þó skilyrtur við að háskólasamstæðan verði að veruleika.

Sem fyrr segir er þetta í þriðja sinn sem Samstarf háskóla styður við umbótaverkefni á háskólastigi en fyrri úthlutanir hafa þegar gefið góða raun. Þannig sýnir úttekt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins á fyrstu úthlutuninni, sem tilkynnt var um í upphafi árs 2023, að vinnu við 24 af 26 verkefnum sé ýmist lokið eða að ljúka. Verkefnin hafa borið margvíslegan ávöxt: t.a.m. að 400 nemendur hafa stundað nám í greinum sem höfðu ekki verið kenndar áður en Samstarfs háskóla naut við, margvíslegir innviðir háskóla hafa verið bættir og grunnur lagður að fjölbreyttum umbótum á kennsluháttum sem áætlað er að líti dagsins ljós á nýju ári.

 

Eftirfarandi verkefnum er boðið til samninga um stuðning úr Samstarfi háskóla að þessu sinni:

Hamfarafræðinám (HÍ, HR, LBHÍ, HB, HA) – 13 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Verkefnið leggur grunninn að þverfaglegu meistara- og diplómanám í hamfarafræðum með virkri þátttöku fimm íslenskra háskóla og þriggja lykilstofnana á sviðinu. Litið er til þess að náttúruvá og hamfarir afmarkast ekki við náttúruleg ferli heldur snerta fjölmörg fagsvið í samfélaginu. Þess vegna er mikilvægt að viðbragðið nái bæði yfir náttúruleg ferli og samfélagslega þætti.

Heilsugæsluhjúkrun (HA, HÍ) – 25,5 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Unnið er að því að setja á fót nýtt 120 ECTS eininga klínískt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun sem kennt verður sameiginlega við HA/HÍ. Sérstök áhersla verður lögð á að kennsluhættir verði rafrænir sem mun gera hjúkrunarfræðingum um allt land kleift að stunda námið sem er sérlega mikilvægt fyrir heilsugæsluna á landsbyggðinni.

MSHL-stafrænir innviðir (HÍ, HR, LHÍ) – 26 milljónir

Áhersla: Innviðir

Verkefnið snýst um að gera stafræn gögn um íslenska menningu og listir aðgengileg á ábyrgan hátt með nýjum lausnum og samningum sem tryggja persónuvernd og höfundarrétt. Markmiðið verður í öllum tilfellum að hafa gögn eins opin og kostur er.

Alþjóðlegt dýralæknanám (LBHÍ, HÍ, HH) – 22 milljónir

Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir

Markmið verkefnisins er að hefja formlegt samstarf um dýralæknanám milli LbhÍ, Keldna, HÍ, HH og SGGW. Miðað er við að fyrstu tvö árin verði kennd á Íslandi en síðan fari nemendur til SGGW í Póllandi. Í síðari hluta námsins verður boðið upp á hluta af verklega náminu á Íslandi.

Endurskoðun námskrár í hjúkrun (HÍ, HA) - 34,3 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Markmið verkefnisins er að samræma í auknum mæli námsskrár BS og MS náms í hjúkrunarfræði við HÍ og HA en verið er að endurskoða námskrá í hjúkrunarfræði með tilliti til samfélagslegra breytinga, breytinga á námi og þeirra veikinda sem sjúklingar eru að kljást við.

Háskólasamstæða HÍ og Hóla (HÍ, HH) – 170 milljónir

Áhersla: Sameining

Verkefnið miðar að stofnun háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum með fjölbreyttu námsframboði, öflugum rannsóknum og auknum tengslum við atvinnulíf og samfélag um land allt. Horft verður til þess að styrkja HÍ sem leiðandi háskóla í íslensku samfélagi og HH sem sérhæfðan háskóla á landsbyggðinni, og að samstæðan verði eftirsóknarverð fyrir fleiri háskóla og rannsóknastofnanir. HÍ verði flaggskipsháskóli samstæðunnar og HH aðildarskóli með starfsemi á Hólum og Sauðárkróki.

Háskólaskrifstofa í Brussel (HÍ, HR) – 40 milljónir

Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir

Verkefnið snýr að stofnun íslenskrar háskólaskrifstofu í Brussel. Hlutverk hennar er að auka alþjóðlegan sýnileika allra íslenskra háskóla, fylgjast betur með og miðla stefnumótun ESB á sviði háskóla, rannsókna og nýsköpunar til háskólanna, hafa áhrif á mótun auglýsinga, en ekki síst að auka styrkjasókn. Byggt er á fordæmum frá norrænum háskólum og hvernig slík starfsemi hefur stóraukið árangur þeirra í öflun styrkja.

Hátæknilandbúnaður (LBHÍ, HÍ, HR) – 60 milljónir

Áhersla: Innviðir

Komið verður upp aðstöðu sem styður við kennslu og þróun á sviði hátæknilandbúnaðar á Íslandi. Markmiðið er að bæta samkeppnishæfni með gagnadrifinni sjálfvirkni sem byggir á öflugri úrvinnslu (s.s. með gervigreind) yfir alla virðiskeðjuna til að auka virði, geymsluþol og útflutningsverðmæti afurða.

Kennsluþróun á sviði kynheilbrigðis (HÍ, HA) - 5,6 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Verkefnið felur í sér samstarf HÍ og HA um að efla kennslu um kynheilbrigði innan heilbrigðisvísinda og auka aðgengi nemenda um allt land að námi um kynheilbrigði á háskólastigi.

Nám í lagareldi (HH, HÍ, LBHÍ, HA) – 65 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Markmið verkefnisins er að efla enn frekar lagareldisnám með því að A – byggja upp og kenna ný námskeið á meistarastigi, B – þróa örnám í lagareldi á grunn- og meistarastigi, C – þróa aðferðir og kennsluefni til að auka kennslu námskeiða í fjarnámi.

Norðurslóðarannsóknir á Íslandi (HÍ, HA) – 12 milljónir

Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir

Skipulagðar verða fjórar þematengdar vinnustofur með þátttöku innlendra rannsakenda. Verkefnið mun styrkja norðurslóðasamsamstarf hérlendis og efla sókn innlendra aðila í alþjóðlega samkeppnissjóði.

Rannsóknainnviðir fyrir jarðhita (HR, HÍ) – 65 milljónir

Áhersla: Innviðir

Stefnt er að uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu fyrir rannsóknir á nýtingu jarðhitavökva. Oft er hugmynd að búnaði til staðar en ekki hægt að koma henni í framkvæmd þar sem aðstöðu vantar til prófana. Hér væri því kominn vettvangur til að útfæra hugmyndir og prófa þær við raunaðstæður og því hægt að bjóða upp á fjölbreytt, stærri verkefni í nánu samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Rannsóknamiðstöð sjálfsvíga (HA, HÍ, HR) – 80 milljónir

Áhersla: Innviðir

Verkefnið er að stofna miðstöð um rannsóknir á sjálfsvígum, orsakaþáttum þeirra, afleiðingum og forvörnum hér á landi í samvinnu háskóla og heilbrigðisstofnana. Ráðgert er að miðstöðin verði starfrækt við Háskólann á Akureyri en sem samstarfsverkefni HÍ, HR, LSH, Landlæknis og enn fleiri aðila í framtíðinni.

Velsældarfræði (HR, HÍ, HA) – 61,1 milljónir

Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir

Verkefnið miðar að því að búa til þverfaglegt MSc nám í velsældarfræðum. Um er að ræða samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Embættis landlæknis og Háskólans í Surrey. Námið mun þjálfa nemendur frá ýmsum sviðum til að vinna saman að lausnum sem auka velsæld fólks og samfélagsins, þar sem greinar eins og heilbrigðisvísindi, hagfræði, viðskipti, sálfræði, félagsfræði og stjórnmálafræði koma við sögu.

Aukið aðgengi að listnámi (LHÍ, HA) – 29,3 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Verkefnið miðar að því að auka aðgengi að listnámi utan Reykjavíkur, auka sveigjanleika námsins og möguleika nemenda til þess að móta eigin áherslur. Skólarnir vænta þess að með þessu samstarfi og námsskipulagi muni skólarnir geta aukið aðgengi að námi í listum á háskólastigi og þjónað þannig betur landsbyggðinni og fjölbreyttari nemendahópi.

Rannsóknastofnun Íslands í geimvísindum (HÍ, LHÍ, HA) – 20 milljónir

Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands í samvinnu við Geimvísindastofnun Íslands munu stofna rannsóknastofnun í geimvísindum (IRISS). IRISS mun auðvelda samvinnu milli erlendra og innlendra vísindamanna, nemenda, verkfræðinga og hönnuða á sviði geimvísinda; og byggja upp getu og þekkingu íslenskra aðila af alþjóðlegum geimáætlunum.

Rannsóknarsetur um netöryggisfræði (HR, HÍ, HA) – 67,3 milljónir

Áhersla: Innviðir

Stofnuð verður rannsóknarmiðstöð á sviði netöryggis. Í því felst að búa til nýtt doktorsnám sem þróað er í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands og stækka „cyber laboratoríuna“ í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Með þessu verða fjármagnaðar doktorsstöður með áherslu á áskoranir í netvörnum og tækifærum í netöryggi sem felast í nýlegum framförum í gervigreind.

Bætt heilsa eftir áföll (HÍ, HR) – 53 milljónir

Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir

Markmið verkefnisins er að kanna gagnsemi einfalds og aðgengilegs stafræns inngrips sem ætlað er að draga úr áfallatengdum minningum og bæta þannig langtíma heilsufar í kjölfar áfalla, í samstarfi HÍ og HR. Þetta samstarf mun enn fremur auka tækifæri fyrir sameiginlegt framhaldsnám og rannsóknir á þessu sviði.

Framhaldsnám og rannsóknainnviðir í lífvísindum (HÍ, HR, LBHÍ, HH, HA) – 43,5 milljónir

Áhersla: Sveigjanleiki í námi

Stofnaður verður vettvangur fyrir rannsakendur og nemendur í STEM greinum til að auka samstarf saman þvert á stofnanir. Jafnframt verður sett á laggirnar námskeið í lífvísindum fyrir framhaldsnemendur. Settir verða upp verkferlar um nýtingu rannsóknainnviða í erfðatækni og smásjármyndgreiningu og úrvinnslu og varðveislu gagna. Hagrætt verður í innkaupum á rannsóknavörum með markvissri kortlagningu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta