Leiðtogafundur JEF undirstrikar stuðning við varnarbaráttu Úkraínu
Þróun öryggismála í Evrópu, varnarstuðningur við Úkraínu og aukið samstarf JEF ríkjanna var meðal þess sem leiðtogar Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) ræddu á fundi sínum í Tallinn í Eistlandi sem lauk í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn fyrir hönd forsætisráðherra.
Volodómír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn um fjarfundabúnað og ræddu leiðtogarnir um mikilvægi þess að styðja varnarbaráttu Úkraínu með skilvirkum hætti og tryggja innleiðingu og eftirlit með þvingunaraðgerðum.
„Það kom skýrt fram á fundinum að öryggi Evrópu er samofið öryggi Úkraínu og því hvernig þeim reiðir af í baráttunni við innrásarher Rússlands. Það þarf að skoða stuðninginn við varnarbaráttu þeirra í þessu ljósi og horfa til þess hvaða fordæmi við setjum til framtíðar,” segir Þórdís Kolbrún.
Leiðtogarnir voru sammála um að halda áfram að efla varnir og viðbragðsgetu ríkjanna og efla samstarf þeirra á því sviði í samræmi við skuldbindingar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Einnig var ákveðið að JEF ríkin myndu styrkja samráð vegna svokallaðs skuggaflota, sem Rússar nota til að komast framhjá þvingunaraðgerðum.
Í tengslum við fundinn var gefin út sameiginleg leiðtogayfirlýsing. Í henni var meðal annars undirstrikað að Rússland sé „mesta, beina og langvarandi ógnin við öryggi, frið og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu.”
Í yfirlýsingunni bentu leiðtogarnir einnig á að ríkin tíu hefðu eflt verulega samstarf og aðgerðir gegn rússneskum skemmdarverkum, ofbeldi, netárásum, upplýsingaóreiðu og öðrum fjölþáttaógnum.
JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja, Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Bretlands og Hollands, um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. Samstarfinu er ætlað að tryggja skjót viðbrögð við hvers kyns aðstæðum og styðja við annað fjölþjóðasamstarf, svo sem á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttökuríkin eiga jafnframt reglubundið og virkt öryggispólitískt samráð.
Aðildarríki JEF fögnuðu því nýverið að tíu ár eru frá stofnun sveitarinnar en Ísland bættist í hópinn árið 2021. Aðgerðir á vegum JEF hafa undanfarið beinst að vörnum gegn fjölþáttahernaði, einkum gegn innviðum á og í hafi, svo sem neðansjávarlögnum og –strengjum, borpöllum og vindorkuverum.