Hoppa yfir valmynd
17. desember 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þrjú teymi keppa um hönnun og byggingu nýrrar Þjóðarhallar

Þrjú teymi hafa verið valin til þátttöku í samkeppnisútboði um hönnun og byggingu nýrrar Þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir í Laugardal. Forval var auglýst í vor og liggja niðurstöður þess fyrir. Samkeppnisgögnin hafa nú verið afhent teymunum og er samkeppnin formlega hafin.

Samkeppnisgögn byggja á vinnu framkvæmdanefndar og síðar Þjóðarhallar ehf.  frá miðju ári 2022 og síðan með aðkomu Framkvæmdasýslu - Ríkiseigna. Þjóðarhöll ehf. er í eigu ríkis og borgar, sem skipa stjórn Þjóðarhallar ehf. Kostnaðarskipting milli ríkis og borgar liggur fyrir og er framkvæmdin fjármögnuð á fjárlögum, í fjármálaáætlun 2025–2029 og í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Teymin sem taka þátt í samkeppnisútboðinu eru:

  1. Eykt ásamt T.ark arkitektum, HKS Architects, Verkís, Maffeis Engineering, Landslagi og Brekke & Strand Akustikk.
  2. ÍAV ásamt ASK arkitektum, COWI, LPO arkitektum, Ísloft, EOH og Landhönnun.
  3. Ístak ásamt Eflu ehf., Nordic Office of Architecture og Populus.

Að loknu samkeppnisútboði verður gerður verksamningur við eitt teymi um fullnaðarhönnun og byggingu mannvirkisins.

Í samkeppnisgögnum er lögð áhersla á að tryggja framúrskarandi gæði í hönnun, byggingu og rekstri Þjóðarhallar með áherslu á notagildi, útlit, frágang, aðgengi, sjálfbærni og hagkvæmni.

Ný Þjóðarhöll mun umbylta umgjörð í kringum landsliðsfólk í fjölmörgum íþróttagreinum, stórbæta aðstöðu fyrir börn og ungmenni og aðra íþróttaiðkendur auk þess að vera fjölnota hús fyrir þjóðina alla. Ráðgert er að hún verði allt að 19.000m2 að stærð, taki 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum.

Þjóðarhöllin mun rísa í hjarta Laugardals, sunnan Laugardalshallar, með góðri tengingu við borgarlínu, göngu- og hjólaleiðir og fyrirliggjandi mannvirki; Laugardalshöll og Frjálsíþróttahöll. Notendur verða íþróttafélög, landsliðshópar sérsambanda fyrir æfingar og keppni, skólar í nágrenninu, háskólar fyrir íþróttakennslu og ýmsir viðburðahaldarar. Þá er ætlunin að höllin sé aðgengileg öllum, vettvangur lýðheilsuverkefna og samkomustaður íþróttafólks og almennings með tilheyrandi veitingarekstri sem tengist safnsvæði áhorfenda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta