Hoppa yfir valmynd
19. desember 2024 Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Eftirsótt námskeið um öryggis- og varnarmál

Þátttakendur á síðasta námskeiði um öryggis- og varnarmál. - mynd

Um 50 manns hafa nú útskrifast af ítarlegu námskeiði um öryggis- og varnarmál, sem varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins og skrifstofa almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu halda sameiginlega. Haldin hafa verið þrjú námskeið sem hafa verið vel sótt.

Tilgangur námskeiðsins er að efla þekkingu á málaflokknum meðal starfsmanna ráðuneyta, stofnana, háskóla og fyrirtækja eða samtaka sem tengjast öryggis- og varnarmálum með einum eða öðrum hætti. 

Meðal málefna sem eru tekin fyrir á námskeiðinu eru varnarsamstarf Íslands, aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þjóðaröryggisstefna Íslands, framkvæmd varnartengdra verkefna, upplýsingaóreiða og fjölþáttaógnir. 

„Aldrei hefur verið jafn brýnt að efla þekkingu á öryggis- og varnarmálum og styrkja samstarf milli stofnana og einstaklinga sem koma að þessum mikilvæga málaflokki,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Á námskeiðinu í haust fóru þátttakendur meðal annars í skoðunarferð um öryggissvæðið í Keflavík, kynntu sér flugvéla- og skipakost Landhelgisgæslunnar og heilsuðu upp á sérsveit Ríkislögreglustjóra. Í þetta sinn lauk námskeiðinu með þátttöku í árlegri ráðstefnu Almannavarna. Fyrirhugað er að halda tvö slík námskeið á ári, hið næsta vorið 2025, og er val á þátttakendum í því námskeiði þegar hafið. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta