Hoppa yfir valmynd
19. desember 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýr reiknigrundvöllur við tryggingafræðilega athugun hjá lífeyrissjóðum á líkum á sambúð og barneignum

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur móttekið tillögur frá Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga um nýjar maka- og barnalíkur til að nota við tryggingafræðilegar athuganir lífeyrissjóða. Hinar nýju forsendur voru samþykktar á félagsfundi félagsins 4. desember. Fram kemur í erindi félagsins að töflurnar, sem ætlað er að koma í stað eldri taflna, séu grundvallaðar á gögnum frá Hagstofu Íslands sem byggjast á árunum 2019-2023 með upplýsingum um hjúskaparstöðu og fjölda barna. Mat félagsins er að áhrif nýrra taflna á lífeyrissjóði verði minniháttar. Áætlað er að skuldbindingar lífeyrissjóða vegna makalífeyris hækki lítillega, sem rekja megi til hærri lífaldurs, og að skuldbindingar sjóða vegna barnalífeyris lækki vegna lægri barneignalíka.

Í reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er kveðið á um að við mat á líkum þess að sjóðfélagi verði í hjónabandi eða annarri sambúð á hverju aldursári í framtíðinni, skuli stuðst við tíðni hjónabands eða sambúðar á hverju aldursári samkvæmt töflum sem útgefnar eru af ráðherra að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Þá er í reglugerðinni kveðið á um að við mat á líkum þess að sjóðfélagi eigi börn á hverju aldursári í framtíðinni, skuli stuðst við fjölda og aldur barn á framfæri á hverju aldursári foreldra samkvæmt töflum sem útgefnar eru af ráðherra að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.

Ráðuneytið fellst á tillögur félagsins og tilkynnir hér með að við næstu tryggingfræðilegu athugun hjá lífeyrisjóðum skuli byggt á tilvitnuðum töflum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta