Hoppa yfir valmynd
20. desember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

3,5 milljarða styrkur til að bæta vatnsgæði á Íslandi

Þingvallavatn. - myndHugi Ólafsson

Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið styrkir einnig verkefnið, sem ber yfirskriftina LIFE ICEWATER.

Verkefninu er ætlað að:

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns

Með LIFE ICEWATER gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum.

Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:„Árið 2020 ákváðu íslensk stjórnvöld, að tillögu Utanríkisráðuneytisins, að taka þátt í svokallaðri umhverfis- og loftslagsáætlun LIFE innan samstarfsáætlana ESB. Áætlunin var talin styðja vel við áform um orkuskipti og aðrar loftslagsaðgerðir, en Ísland hafði þá eitt EES og EFTA ríkja ekki tekið þátt í áætluninni áður. Sú vinna fór af stað af krafti á þessu kjörtímabili og viðtökur íslenskra aðila hafa verið mjög góðar. Auk Icewater-styrksins, hafa fengist bæði smærri og stærri styrkir, m.a. styrkur til að þróa vinnslu á áburði úr úrgangi frá landeldi á laxi sem nemur tæpum milljarði króna. Með Icewater-styrknum hafa stjórnvöld hafa stuðning sinn endurgreiddan fimmfalt og má þess vænta að styrkveitingar úr áætluninni verði umtalsvert hærri en skuldbindingar Íslands vegna þátttökunnar á tímabilinu sem er til 2027.“

LIFE ICEWATER verkefninu er skipt upp í 7 vinnupakka en yfirlit yfir aðgerðir hvers vinnupakka má sjá á myndinni hér fyrir neðan:

Auk Umhverfisstofnunar eru 22 samstarfsaðilar í verkefninu: umhverfis,- orku og loftslagsráðuneytið, Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavík, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

  • 3,5 milljarða styrkur til að bæta vatnsgæði á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta