Hoppa yfir valmynd
20. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 20. desember 2024

Heil og sæl.

Þetta er næstsíðasti föstudagspóstur ársins 2024. Við snúum aftur að viku liðinni en viljum þangað til óska ykkur gleðilegra jóla með von um að þið munið hafa það náðugt næstu daga.

Við byrjum yfirferð vikunnar á leiðtogafundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) sem fram fór í Eistlandi á dögunum og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti í fjarveru forsætisráðherra. Þróun öryggismála í Evrópu, varnarstuðningur við Úkraínu og aukið samstarf JEF-ríkjanna voru meðal helstu umræðuefna fundarins.

Utanríkisráðherra fundaði með Shri R. Ravindra, nýjum sendiherra Indlands á Íslandi, fyrr í vikunni. Tilefnið var að bjóða nýja sendiherrann velkominn til Íslands en jafnframt að fara yfir möguleika á þéttari samstarfi ríkjanna tveggja. Fríverslunarsamningur við Indland var undirritaður fyrr á þessu ári og komu tækifæri honum tengd oft við sögu í samræðum ráðherra og sendiherra.

  

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, var í vikunni staddur í Prag þar sem hann afhenti Petr Pavel, forseta Tékklands, trúnaðarbréf sitt. Sendiráð Íslands í Berlín fer með fyrirsvar gagnvart Tékklandi.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, sótti lokaráðstefnu vegna fjármögnunartímabils verkefna í Eistlandi á vegum uppbyggingarsjóðs EES.

  

Þá tók Harald á móti laxmönnunum hjá innflutningsfyrirtækinu Jokisen Eväät. Þeir eru að hefja innflutning á íslenskum laxi til Finnlands.

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, var í viðtali í nýjasta tölublaði Nyt fra Island, blaði Dansk-Islandsk Samfund, á dögunum.

  

Pétur sótti þann 27. nóvember síðastliðinn ráðstefnu á vegum kanadíska sendiráðsins í Kaupmannahöfn undir nafninu 16 Days of Activism against Gender-Based Violence. Pétur gerði þar grein fyrir stöðu jafnréttismála á Íslandi.

  

Sendiráðið í Lilongwe sagði frá spennandi fréttum af verkefnum sem það styrkir í Mangochi-héraði.

  

Þórður Bjarni Guðjónsson, aðalræðismaður á Grænlandi, sótti jólaguðsþjónustu í Nuuk á dögunum.

  

Benedikt Höskuldsson, sendiherra í Nýju Delí, sótti á dögunum opnunarathöfn sendiráðs Moldóvu á Indlandi.

  

Íslensk menning er í öndvegi á evrópsku kvikmyndahátíðinni Les Arcs sem fer fram í frönsku Ölpunum þessa vikuna. Hátíðin er stærsta menningarverkefni sendiráðsins í París þetta árið en undirbúningur þátttöku Íslands, í samstarfi við Kvikmynda- og tónlistarmiðstöð, hefur staðið yfir í rúmt ár. Tuttugu íslensk kvikmyndaverk eru sýnd á hátíðinni og tónlistarfólkið Högni Egilsson og Lúpína komu fram á tónleikum. Unnur Orradóttir Ramette sendiherra var viðstödd opnunarhátíðina og flutti ræðu í íslenskum kvöldverði með Alpaþema.

  

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, var jólalegur í viðtali við fréttamiðilinn Polska Agencja Prasowa á dögunum en þar var farið yfir íslenskar jólahefðir.

  

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington, fundaði með fulltrúadeildarþingmanninum Brian Mast frá Flórída. Mast tekur senn við sem formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Svanhildur hitti einnig og ræddi viðskiptamál við Dan Mullaney hjá bandarísku hugveitunni Atlantic Council.

Vilhjálmur Wium, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, heimsótti Jón Atla Benediktsson rektor og Birnu Bjarnadóttur rannsóknalektor í Háskóla Íslands í vikunni. Þar voru m.a. rædd málefni tengd Vestur-Íslendingum, ekki síst málefni íslenskudeildar Manitóbaháskóla og samstarf deildarinnar við Háskóla Íslands til framtíðar.

 

Þessa dagana hrúgast einnig inn hátíðarkveðjur frá sendiskrifstofum okkar á erlendri grundu. Hér fylgja nokkrar slíkar.

 

 

  

  

  

  

  

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi og gleðileg jól!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta