Hoppa yfir valmynd
20. desember 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Háskólanám á Austurlandi haustið 2025

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ásamt fulltrúum Hallormsstaðaskóla og Háskóla Íslands. - mynd

Fulltrúar Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla undirrituðu í dag samstarfssamning við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um nám í skapandi sjálfbærni. Námið hefur verið í boði við Hallormsstaðaskóla en með samningnum mun námið nú flytjast á háskólastig. Kennsla hefst haustið 2025 og mun fara fram í Hallormsstaðaskóla á vegum Deildar faggreinakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Markmið samstarfsins er að efla háskólanám og rannsóknir á Austurlandi og styrkja hlutverk Háskóla Íslands sem háskóla allra landsmanna. Samstarfið markar tímamót því þetta er fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi með áherslu á nýsköpun og sjálfbærni. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára með möguleika á framlengingu.

Undirritun dagsins á sér nokkurn aðdraganda. Ráðuneytið og fulltrúar skólanna tveggja undirrituðu viljayfirlýsingu sama efnis í nóvember 2023 og fulltrúar Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla undirrituðu síðan samstarfssamning sín á milli í maí síðastliðnum. Með undirritun dagsins hefur verið samþykkt endanleg útfærsla á rekstri og ábyrgð á námsleiðinni.

Háskóli Íslands ber faglega ábyrgð á náminu. Undir það fellur m.a. ábyrgð á kennslu, námsefni og námsmati, eftirlit og umsjón með inntöku nemenda og námsframvindu þeirra, ráðning akademískra starfsmanna sem og brautskráning nemenda, með sama hætti og á við um allt nám á vegum HÍ.

„Það er mikið gleðiefni að samningar hafa formlega verið undirritaðir um nám í skapandi sjálfbærni. Málið hefur verið undirbúið afar vel í góðu samstarfi við stjórnvöld og Hallormstaðaskóla. Háskólaráð Háskóla Íslands hefur formlega samþykkt námsleiðina og því er afar ánægjulegt að geta boðið upp á námið frá og með næsta skólaári. Þetta fyrsta staðbundna háskólanám á Austurlandi er sannarlega í takt við stefnu Háskóla Íslands sem m.a. kveður á um að þjóna landinu öllu og leggja okkar af mörkum til menntunar á sviði sjálfbærni. Við hlökkum því til spennandi samstarfs við Hallormsstaðaskóla á næstu árum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Hlutverk Hallormsstaðaskóla er umsýsla í tengslum við framkvæmd námsins. Í því felst að Hallormsstaðaskóli leggur til kennsluaðstöðu og vinnuaðstöðu fyrir kennara og nemendur vegna námsins og annast þjónustu við nemendur og kennara á staðnum.

„Samstarf Hallormsstaðaskóla og Háskóla Íslands markar tímamót í menntun á Austurlandi og sögu Hallormsstaðaskóla. Með því að færa nám í Hallormsstaðaskóla upp á háskólastig er byggt á traustum grunni öflugs starfs skólans frá upphafi og skapaður vettvangur fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu. Þetta er stórt skref fram á við og mikilvæg lyftistöng fyrir menntun og þróun á Austurlandi, þar sem um er að ræða fyrsta staðbundna háskólanám svæðisins,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður stjórnar Hallormsstaðaskóla.

Sem fyrr segir er stefnt að því að námið hefjist haustið 2025 og munu framtíðarnemendur innritast í Háskóla Íslands en stunda nám í Hallormsstaðaskógi á Austurlandi.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir starf Hallormsstaðaskóla og mjög ánægjulegt að sjá þetta einstaka nám verða hluta af námsframboði Háskóla Íslands. Nemendur fá nú tækifæri til að nýta námið bæði sem grunn að frekara háskólanámi og sem sjálfstæða diplómu,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta