Ríkisrekstur bættur með nýtingu gervigreindar
Norræna embættismannanefndin um atvinnustefnu (EK-N) hefur veitt samstarfsverkefni Fjársýslu ríkisins (FJS) og DataLab, íslensks sprotafyrirtækis, styrk að upphæð 1.250.000 DKK (24.200.000 ISK). Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sótti um styrkinn í tengslum við aðgerðaráætlun um gervigreind sem kynnt var í byrjun nóvember. Verkefnið miðar að því að búa til gervigreindarlausn sem nýta megi í opinberum rekstri til að spá betur fyrir um afkomu og greina hugsanleg frávik frá rekstraráætlunum ríkisstofnana.
Með því að nýta ítarleg bókhaldsgögn eins og tekjur, laun, fjárfestingar, innkaup á þjónustu og afskriftir geti kerfið búið til árlega afkomuspá fyrir hverja stofnun. Þessar spár yrðu síðan bornar saman við rekstraráætlanir þeirra til að greina hugsanleg frávik. Kerfið myndi jafnframt tilkynna sjálfkrafa um veruleg frávik, sem gerir FJS kleift að bregðast tímanlega við með því að hafa samband við viðkomandi stofnanir og óska eftir skýringum eða grípa til aðgerða.
Þá yrði kerfið hannað til að taka mið af ytri áhrifum: svo sem gengisbreytingum, verðbólgu og óvæntum atburðum eins og náttúruhamförum. Þannig mætti tryggja spáin væri sveigjanleg og myndi nýtast betur við fjárhagslega áætlanagerð. Þessi hæfni gæti dregið verulega úr óvissu í starfsemi ríkisins og stuðlað að betri nýtingu fjármuna í opinbera geiranum.
Hér fyrir neðan er yfirlit yfir þátttakendur í verkefninu:
Fjársýsla ríkisins er þjónustu- og þekkingarstofnun á sviði opinberra fjármála. Stofnunin veitir fjölbreytta þjónustu og ráðgjöf til ríkisaðila á sviði fjármála, innkaupa og mannauðsmála.
DataLab veitir leiðsögn um hagnýta notkun gervigreindar í rekstri og hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að ná árangri með notkun gagna.
Flowcore, frá Færeyjum, býður upp á gagnainnviðalausn sem er sérstaklega hönnuð fyrir þróunaraðila gervigreindarlausna. Lausnin einfaldar flókin gagnaferli hvort sem unnið er með rauntímagögn, skipulögð eða óskipulögð gagnasöfn, eða þegar þörf er á kerfum til þjálfunar gervigreindar.
Skatteverket (Sænski skatturinn) sér um skráningu íbúa og innheimtu skatta, svo sem tekjuskatts einstaklinga, fyrirtækjaskatts, virðisaukaskatts og sértækra gjalda.
Fjársýsla ríkisins annast verkefnastjórnun og tryggir samræmi og samvinnu á milli allra aðila. Flowcore sér um fyrstu uppbyggingu gagnainnviða og gagnaúrvinnslu, á meðan DataLab þróar gervigreindarlausnir byggðar á þessum gögnum. Skatteverket mun yfirfara lausnirnar og veita álit sérfræðinga til að bæta árangur þeirra. Gert er ráð fyrir að þróun lausnarinnar muni taka um eitt ár.
Lögð var sérstök áhersla á að fá sprotafyrirtæki með í verkefnið til að styðja við sprotaumhverfi gervigreindar á Norðurlöndunum. Þeim verður gert kleift að selja lausnina áfram og laða að sér fleiri viðskiptavini, sem tryggir áframhaldandi þróun lausnarinnar. Með því að vinna með öðrum sprotafyrirtækjum þvert á landamæri má þannig stuðla að aukinni þekkingu á Norðurlöndum á sviði gervigreindar.