Rúmir 10 milljarðar til úthlutunar úr Loftslags- og orkusjóði
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur undirritað reglugerð um Loftslags- og orkusjóð en sjóðurinn varð til við sameiningu Orkusjóðs og Loftslagssjóðs sem báðir heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Reglugerðin hefur verið nú birt í Stjórnartíðindum.
Loftslags- og orkusjóður á að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtni, orkuskipta og hringrásarhagkerfis, einkum til verkefna í tengslum við innleiðingu nýrra loftslagsvænna lausna, auk þess að styðja við verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Loftslags- og orkusjóður mun opna fyrir umsóknir úr sjóðnum í janúar nk. og eru samtals um 10 milljarðar til úthlutunar á árinu 2025. Sjóðurinn skiptist annars vegar í samkeppnishluta og hins vegar í beinan stuðning við kaup á hreinorkutækjum. Á árinu 2025 verður sérstök áhersla á stuðning við kaup á hreinorkuökutækum til notkunar í almenningssamgöngum. Með reglugerðinni er sett fram fyrirkomulag um stuðningu við grænar lausnir sem mun gilda a.m.k. til ársloka 2028.
Stjórn Loftslags- og orkusjóðs mun á næstunni birta ýtarlegri upplýsingar um styrkveitingarnar á vef Umhverfis- og orkustofnunar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Græn orkuskipti eru lykillinn að árangri bæði þegar horft er til orkuöryggis þjóðarinnar og til markmiða Íslands í loftslagsmálum. Það hefur verið kraftur og gangur í orkuskiptunum á þessu kjörtímabili og sameining Loftslags- og orkusjóðs, sem tók gildi á þessu ári, er mikilvægur liður í því að einfalda regluverk og gera það skilvirkara.“