Hoppa yfir valmynd
20. desember 2024 Innviðaráðuneytið

Sundabraut: Jarðrannsóknum að ljúka og stefnt að kynningu á breytingum á aðalskipulagi árið 2025

Yfirlitsmynd af mögulegri legu Sundabrautar - mynd

Vinna við undirbúning Sundabrautar er í fullum gangi. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði sérstaka verkefnastjórn árið 2022 til að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautarverkefnisins en frá þeim tíma hefur verið unnið að ýmsum hliðum málsins. Þar má nefna jarðrannsóknir vegna umhverfismats, undirbúning vegna mögulegra skipulagsbreytinga og vinnu við gerð viðskiptaáætlunar. Auk þess hefur umfangsmikið samráð átt sér stað, opnir fundir verið haldnir og samráð haft við ýmsa hagaðila sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu, s.s. Faxaflóahafnir og skipafélög. Hér að neðan er yfirlit um stöðu mála vegna Sundabrautar.

Félagshagfræðileg greining á lagningu Sundabrautar sem kynnt var árið 2022 leiddi í ljós mikinn þjóðhagslegan ábata fyrir samfélag með minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Umhverfismat

Þegar hefur verið lögð mikil vinna í rannsóknir og greiningar vegna mats á umhverfisáhrifum en matsáætlun var kynnt haustið 2023. Á þessu ári hefur verið unnið að umfangsmiklum jarðtæknirannsóknum á landi og sjó en þeim rannsóknum að ljúka. Einnig hefur verið unnið áfram að útfærslu valkosta en kostnaðarmat byggir m.a. á niðurstöðum jarðtæknirannsókna.

Skipulagsmál

Gert er ráð fyrir að næsta vor muni liggja fyrir hvaða valkostur um legu Sundabrautar verði formlega lagður til. Haustið 2025 verði auglýst viðeigandi breyting á aðalskipulagi í samræmi við þær niðurstöður. Gert er ráð fyrir deiliskipulagsvinnu samhliða ferli vegna aðalskipulagsbreytinga. 

Viðskiptaáætlun

Ráðgjafafyrirtækið Deloitte hefur unnið að gerð viðskiptaáætlunar fyrir Sundabraut. Áætlunin hefur verið unnin samhliða vinnu við umhverfismat en kostnaðarmat mannvirkja byggir m.a. á niðurstöðum þess. Þar sem um samvinnuverkefni er að ræða verður framkvæmdin fjármögnuð með gjaldtöku af umferð í takt við lög um samvinnuverkefni. Áætlanir hafa gert ráð fyrir því að Sundabraut opni árið 2031 og þá verður heimilt að innheimta veggjöld. Sú leið að fjármagna framkvæmdirnar með veggjöldum af umferð tryggir að hún hefur ekki áhrif á aðrar samgönguframkvæmdir sem fjármagnaðar eru beint af ríkinu.

Næstu skref

Þegar ákvörðun um leiðarval liggur fyrir og hún auglýst sem breyting á aðalskipulagi er unnt að hefja útborðsferli samvinnuverkefnisins. Verkefnið verður langstærsta einstaka verkefnið í samgöngukerfi landsins en miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir má gera ráð fyrir að árleg fjárfesting vegna verkefnisins geti numið á bilinu 20-25 ma.kr. Til samanburðar nema heildarframlög til framkvæmda og viðhalds á vegum um 27 ma.kr á fjárlögum fyrir árið 2025.

Tímalína

  • 2024 – Unnið að ýmsum verkefnum, þ.á m. jarðtæknirannsóknum á landi og sjó, kostnaðarmati, útfærslu valkosta og gerð viðskiptaáætlunar.
  • Haustið 2023 – Matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum. 
  • Janúar 2023 – Verkefnastjóri ráðinn til að stýra verkefnum tengdum Sundabraut.
  • Maí 2022 – Verkefnastjórn skipaður til að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautar, skipuð fulltrúum innviðaráðuneytis, Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  • Janúar 2022 – Félagshagfræðileg greining á lagningu Sundabrautar leiðir í ljós mikinn þjóðhagslegan ábata fyrir samfélag með minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring.
  • Júlí 2021 – Ríki og borg undirrita síðan yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar þar sem sammælst var um Sundabraut yrði lögð alla leið í Kjalarnes í einni framkvæmd og að brautin yrði tekin í notkun árið 2031.
  • Febrúar 2021 – Starfshópur um lagningu Sundabrautar, með fulltrúum Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kynnti niðurstöður fyrsta áfanga. 
  • Júlí 2020 – Alþingi samþykkti lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir en Sundabraut er ein sex framkvæmda sem heimilt er að bjóða út sem samvinnuverkefni (PPP):
  • Júní 2020 – Starfshópur um Sundabraut skipaður til að skoða tvo kosti um legu Sundabrautar.
  • Júlí 2019 – Starfshópur um Sundabraut skilar skýrslu til ráðherra.

Fréttir á vef Stjórnarráðsins um Sundabrautarverkefnið

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta