Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins
Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024 liggur nú fyrir. Uppgjörið í heild sinni er aðgengilegt á vef Fjársýslu ríkisins.
Helstu niðurstöður uppgjörsins eru:
Rekstrarafkoma tímabilsins án afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 101 ma.kr. sem er nánast óbreytt afkoma frá sama tímabili árið 2023. Er það nokkuð lakari niðurstaða en áætlun tímabilsins gerði ráð fyrir sem var halli um rúmlega 84 ma.kr. Stærstu frávik frá þeirri áætlun eru í fjármagnsliðum sem voru um 8 ma.kr. umfram áætlun þar sem víxlaútgáfa hefur verið umfangsmeiri, löggæslu um 6 ma.kr., einkum vegna viðbragða við eldsumbrot á Reykjanesi, útlendingamálum 2 ma.kr. og vörnum vegna náttúruvár, um 1 ma.kr., en hluti af þessum frávikum eru bætt af almennum varasjóði.
Mánaðaruppgjör Fjársýslunnar eru gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila sem miða við rekstrargrunn, IPSAS. Framsetning og flokkun upplýsinga um fjármál skv. 1. gr. fjárlaga eru samkvæmt hagskýrslustaðlinum GFS.
Við vinnslu fjáraukalaga ársins 2024, sem samþykkt voru á Alþingi þann 18. nóvember sl., var afkoma yfirstandandi árs endurmetin með hliðsjón af rauntölum fyrstu níu mánaða þessa árs að viðbættri afkomuspá út árið. Þar er gert ráð fyrir að afkoma ársins 2024 skv. hagskýrslustaðli GFS verði neikvæð um rúmlega 75 ma.kr. en fjárlög ársins 2024 sem samþykkt voru í desember 2023 gerðu ráð fyrir um 51 ma.kr. neikvæðari afkomu. Frávik frá áætlun fjárlaga er m.a. vegna hærri fjármögnunarkostnaðar á árinu auk aðkomu ríkissjóðs að gerð kjarasamninga á almennum markaði.
Sundurliðun á tekjum ríkis og gjöldum niður á málefnasvið, málaflokka og ríkisaðila kemur fram í mánaðaruppgjöri sem Fjársýsla ríkisins birtir.