Hoppa yfir valmynd
21. desember 2024 Forsætisráðuneytið

Ráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur skipað

Ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Frá vinstri: Daði Már Kristófersson, Jóhann Páll Jóhannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Logi Einarsson, Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir, Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Alma D. Möller og Benedikt Árnason, ríkisráðsritari. - mynd

Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var skipuð á fundi ríkisráðs Íslands á Bessastöðum í dag.

Ríkisráð kom saman til tveggja funda í dag. Á fyrri fundinum endurstaðfesti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tillögu Bjarna Benediktssonar um að veita ráðuneyti hans lausn frá störfum. Á seinni fundi ríkisráðs féllst forseti á tillögu Kristrúnar Frostadóttur um skipun ráðuneytis hennar.

Forseti undirritaði einnig forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra sem er með eftirfarandi hætti en ráðherrum fækkar úr tólf í ellefu:

  • Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra.
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.
  • Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
  • Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.
  • Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.
  • Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.
  • Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
  • Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
  • Alma D. Möller, heilbrigðisráðherra.
  • Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Breytingar verða gerðar á skipulagi Stjórnarráðsins og verkefni færð milli ráðuneyta. Ráðgert er að breytingar á skipulagi og verkefnum ráðuneyta taki gildi 1. mars nk. en tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands verður lögð fyrir Alþingi í janúar.

Forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra endurspeglar verkaskiptingu ráðuneyta eins og hún verður eftir breytingarnar sem taka gildi 1. mars nk. Þannig taka ráðherrar nú þegar við öllum þeim málaflokkum sem munu heyra undir ráðuneyti þeirra eftir að breytingarnar taka gildi.

Skipan ráðuneyta verður með eftirfarandi hætti eftir breytingarnar og fækkar ráðuneytum þá úr tólf í ellefu með niðurlagningu menningar- og viðskiptaráðuneytis:

Forsætisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða óbreytt.

Atvinnuvegaráðuneyti

Breytt heiti á matvælaráðuneyti. Viðskipti, neytendamál og ferðamál færast til ráðuneytisins frá menningar- og viðskiptaráðuneyti. Iðnaður færist til ráðuneytisins frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Skógrækt og landgræðsla auk dýravelferðar færast frá ráðuneytinu til umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytis.

Dómsmálaráðuneyti

Jafnréttismál og mannréttindamál færast til ráðuneytisins frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Félags- og húsnæðismálaráðuneyti

Breytt heiti á félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Öldrunarþjónusta færist til ráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneyti og húsnæðismál og skipulagsmál færast til ráðuneytisins frá innviðaráðuneyti. Jafnréttismál og mannréttindamál færast frá ráðuneytinu til dómsmálaráðuneytis og framhaldsfræðsla og málefni Fræðslusjóðs færast frá ráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðuneytis.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða óbreytt.

Heilbrigðisráðuneyti

Öldrunarþjónusta færist frá ráðuneytinu til félags- og húsnæðismálaráðuneytis.

Menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðuneyti

Breytt heiti á háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Menning og fjölmiðlar færast til ráðuneytisins frá menningar- og viðskiptaráðuneyti en fjarskipti færast frá ráðuneytinu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Framhaldsfræðsla og málefni Fræðslusjóðs færast til ráðuneytisins frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

Breytt heiti á innviðaráðuneyti. Fjarskipti færast til ráðuneytisins frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti en húsnæðismál og skipulagsmál færast frá ráðuneytinu til félags- og húsnæðismálaráðuneytis.

Umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneyti

Skógrækt og landgræðsla auk dýravelferðar færast til ráðuneytisins frá matvælaráðuneyti.

Utanríkisráðuneyti

Skoðað verður með hvaða hætti hægt sé að efla ráðuneytið á sviði varnarmála og netöryggismála og þar m.a. litið til mögulegs flutnings verkefna á því sviði til ráðuneytisins.


Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra

Formenn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins undirrituðu fyrr í dag stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar sinnar. Þar er m.a. lögð áhersla á stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins og aukna verðmætasköpun í atvinnulífi.

Ríkisstjórnin setur einnig húsnæðisöryggi fólks í forgang og hyggst grípa til aðgerða til að bæta hag lífeyrisþega. Þá hyggst ríkisstjórnin hagræða í ríkisrekstri, fjárfesta í innviðum og efla heilbrigðis- og velferðarþjónustu um land allt. 

Ríkisstjórnin mun tryggja samhæfingu mikilvægra stjórnarmálefna. Þannig mun hún meðal annars setja á fót ráðherranefndir um málefni barna og ungmenna og um málefni eldra fólks.

Tímabilið fram til 1. mars

Á meðan Alþingi fjallar um þingsályktunartillögu um fækkun ráðuneyta og breytt heiti sumra þeirra munu ráðuneytin starfa óbreytt. Samt sem áður fá hinir nýju ráðherrar þegar í stað ábyrgð á stjórnarmálefnum í samræmi við þá skipan sem fyrirhuguð er. Þannig mun atvinnuvegaráðherra fara með matvælaráðuneytið og viðskipti og neytendamál í menningar- og viðskiptaráðuneytinu svo dæmi sé tekið.

Þegar þingsályktunin hefur verið afgreidd verða gefnir út forsetaúrskurðir um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti annars vegar og um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands hins vegar. Í síðarnefnda úrskurðinum verða málefni færð til í samræmi við fækkun ráðuneyta og nýjar áherslur í starfsemi sumra þeirra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta