Alma D. Möller tekin við embætti heilbrigðisráðherra
Alma D. Möller kom til starfa í heilbrigðisráðuneytinu í dag sem heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Alma tekur við embættinu af Willum Þór Þórssyni.
Alma er fyrrverandi landlæknir og var fyrst kvenna til að gegna því embætti. Hún var skipuð í embættið í apríl 2018 og gegndi því í tæp sjö ár þar til hún lét af störfum nýverið. Hún er með sérfræðiviðurkenningu og doktorsgráðu í svæfinga- og gjörgæslulækningum, meistarapróf í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Hún er einnig með diplóma í opinberri stjórnsýslu. Alma var framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala 2014-2018 og um árabil var hún yfirlæknir á gjörgæsludeildum spítalans. Í tvö ár var hún þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar og var jafnframt fyrsta konan til að sinna því starfi. Á árunum 1993-2002 starfaði Alma við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð og gegndi þar stjórnunarstörfum á svæfingardeildum, auk þess að starfa sem sérfræðingur á gjörgæsludeild barna við sjúkrahúsið.
Alma segir að fyrst hyggist hún setja sig inn í þau mál sem eru í vinnslu í heilbrigðisráðuneytingu og síðan að hefjast handa við þau mál sem eru í forgangi samkvæmt stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.: „Það eru viðamikil verkefni framundan og þar vegur uppbygging öldrunarþjónustu þungt en einnig verður heilsa og líðan barna og ungmenna sett í forgang sem og geðheilbrigðismál og meðferð fíknisjúkdóma. Ég er með menntun og reynslu sem mun nýtast mér vel en ég geri mér grein fyrir að það er margt nýtt að læra og komast inn í næstu vikur á mánuði. Ég hlakka til að takast á við starfið og veit ég mun njóta dyggs stuðnings öflugs samstarfsfólks.“