Hoppa yfir valmynd
22. desember 2024 Innviðaráðuneytið

Eyjólfur Ármannsson nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Eyjólfur Ármannsson tekur við lyklavöldum úr hendi Sigurðar Inga Jóhannssonar. - mynd

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók í dag við lyklavöldum í innviðaráðuneytinu af Sigurði Inga Jóhannssyni. Hann tók við embætti á ríkisráðsfundi í gær.

Ný ríkisstjórn hefur kynnt breytingar á skipan Stjórnarráðsins sem ráðgert er að taki gildi 1. mars nk. þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um breytta skipan ráðuneyta. Frá og með þeim tíma verður heiti ráðuneytisins að nýju samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. 

„Það er tilhlökkunarefni að hefjast handa við fjölmörg mikilvæg verkefni í ráðuneytinu og kynnast starfsfólki hér. Ég færi fráfarandi ráðherra og forvera hans þakkir fyrir störf þeirra í ráðuneytinu. Meðal forgangsverkefna verður að setja kraft í samgönguframkvæmdir um land allt, þ.á m. jarðgangagerð og Sundabraut, efla almenningssamgöngur og styðja við fjölbreytta ferðamáta. Við hlökkum til að eiga áfram öflug og góð samskipti við sveitarfélög og efla byggðir landsins. Loks legg ég áherslu á að vinna áfram af alúð að málefnum Grindvíkinga,“ segir Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Eyjólfur er fæddur í Vestmannaeyjum 23. júlí 1969. Hann hefur verið alþingismaður Norðvesturkjördæmis fyrir Flokk fólksins frá árinu 2021. Hann hefur m.a. setið í allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Eyjólfur lauk embættisprófi í lögfræði HÍ 1998, stundaði nám í Evrópurétti við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu og lauk LLM-prófi í lögfræði frá Pennsylvaníuháskóla í Fíladelfíu í Bandaríkjunum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta