Hanna Katrín Friðriksson tekur við lyklum að menningar- og viðskiptaráðuneytinu
Lyklaskipti fóru fram í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í dag þegar Lilja Dögg Alfreðsdóttir fráfarandi menningar- og viðskiptaráðherra afhenti Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra lyklana að ráðuneytinu. Lilja Dögg afhenti Hönnu Katrínu við tilefnið stefnur þeirra málaflokka sem hún verður í forsvari fyrir og óskaði henni góðs gengis.
Menningar- og viðskiptaráðuneytið verður lagt niður í núverandi mynd og munu málaflokkar þess færast til tveggja annarra ráðuneyta. Þetta felur í sér að skrifstofa menningar og fjölmiðla flyst í nýtt ráðuneyti menningar, nýsköpunar og háskóla og skrifstofa viðskipta og ferðamála flyst í nýtt ráðuneyti atvinnuvega.
Atvinnuvegaráðherra mun fara með rekstur og starfsmannamál í menningar- og viðskiptaráðuneyti fram að útgáfu forsetaúrskurðar sem gert er ráð fyrir að taki gildi 1. mars 2025.
Atvinnuvegaráðherra Hanna Katrín Friðriksson fæddist í París, Frakklandi, 4. ágúst 1964. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1985, BA-prófi í heimspeki og hagfræði frá HÍ 1999 og MBA-prófi frá University of California Davis 2001. Hanna Katrín hefur verið alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá árinu 2016 fyrir Viðreisn og formaður þingflokks Viðreisnar síðan 2016. Sjá nánar á vef Alþingis.