Inga Sæland nýr félags- og húsnæðismálaráðherra
Inga Sæland er nýr félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún tók í dag við lyklum í ráðuneyti sínu úr hendi Bjarna Benediktssonar sem verið hefur starfandi félags- og vinnumarkaðsráðherra frá 17. október sl. en þar áður hafði Guðmundur Ingi Guðbrandsson gegnt embættinu frá 28. nóvember 2021.
Inga Sæland er fædd í Ólafsfirði árið 1959. Hún lauk BA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og nam stjórnmálafræði í skólanum frá 2003–2006. Inga stofnaði Flokk fólksins árið 2016 og hefur verið formaður hans frá stofnun. Hún hefur verið þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá árinu 2017 og setið í fjölmörgum nefndum á Alþingi.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynnt í gær og málaflokkar félags- og húsnæðismálaráðuneytisins eru þar fyrirferðarmiklir. Má þar nefna málefni örorkulífeyrisþega, ellilífeyrisþega, fatlaðs fólks og innflytjenda, auk þess sem í stefnuyfirlýsingunni er að finna aðgerðir á húsnæðismarkaði, vinnumarkaði, í fæðingarorlofskerfinu og til að uppræta fátækt.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið mun hljóta nýtt nafn og verður félags- og húsnæðismálaráðuneytið. Öldrunarþjónusta færist til ráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneyti og húsnæðismál og skipulagsmál færast þangað frá innviðaráðuneyti. Þá færast jafnréttis- og mannréttindamál frá ráðuneytinu til dómsmálaráðuneytis og framhaldsfræðsla og málefni Fræðslusjóðs fara til mennta- og barnamálaráðuneytis.
Inga Sæland, nýr félags- og húsnæðismarkaðsráðherra.