Hoppa yfir valmynd
22. desember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Jóhann Páll Jóhannsson tekinn við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu af Guðlaugi Þór Þórðarsyni

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, tekur við lyklum að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu af Guðlaugur Þór Þórðarson, fráfarandi umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra. - mynd

Ráðherraskipti urðu í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í dag þegar Jóhann Páll Jóhannsson tók við embætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra af Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Jóhann Páll er fæddur í Reykjavík 31. maí 1992. Hann hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna, sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2021. Hann er með stúdentspróf frá MR 2012, BA próf í heimspeki frá HÍ 2015, MS próf í Sagnfræði frá Edinborgarháskóla 2017 og MS-próf í evrópskri stjórnmálahagfræði frá London School of Economics and Political Science 2020.

Maki Jóhanns Páls er Anna Bergljót Gunnarsdóttir nýdoktor við Háskóla Íslands en þau eiga tveggja ára dóttur.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ég tek til starfa sem ráðherra fullur auðmýktar og eftirvæntingar og tek hlutverk mitt sem fulltrúi náttúruverndar, sjálfbærrar orkunýtingar og varðstöðu um líffræðilegan fjölbreytileika alvarlega. Mitt forgangsverkefni í ráðuneytinu verður að tryggja forgang almennra notenda, heimila og smærri fyrirtækja, að raforku. Það á að vera hluti af okkar samfélagssáttmála að allir hafi aðgang að nægri orku, öruggri orku og ódýrri orku – og lögin í landinu verða að endurspegla það.”

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynnt í gær. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á markvissar loftslagsaðgerðir svo Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, aðgerðir til að auka orkuöflun og  til að hraða orkuskiptum. Einnig er lögð áhersla á að stutt verði við líffræðilega fjölbreytni og ráðist í aðgerðir til að vernda hafsvæði og ósnortin víðerni. á öllum sviðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta