Hoppa yfir valmynd
22. desember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tekur við lyklavöldum í dómsmálaráðuneytinu

Ráðherraskipti urðu í dómsmálaráðuneytinu á sunnudag þegar nýskipaður dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, tók við lyklum úr hendi Guðrúnar Hafsteinsdóttur fráfarandi ráðherra. Guðrún hefur gegnt embættinu síðan 19. júní 2023.

Þorbjörg Sigríður er fædd í Reykjavík 23. maí 1978. Hún er lögfræðingur að mennt og hefur setið á Alþingi sem þingmaður fyrir Viðreisn í Reykjavíkurkjördæmi norður síðan 2020. Hún á þrjár dætur; Elísabetu Unu, Kristrúnu og Maríu Guðrúnu Ágústsdætur.

Þorbjörg Sigríður starfaði sem blaðamaður á háskólaárum og var aðstoðarsaksóknari og deildarstjóri ofbeldisbrotadeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 2007–2008. Aðstoðarmaður dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur 2008–2009. Vann við rannsóknarstörf í Háskóla Íslands, EDDA – Öndvegissetur 2012–2013. Aðstoðarsaksóknari hjá ríkissaksóknara 2013–2015. Deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst 2015–2017. Aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra 2017 og sem saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara á árunum 2018–2020.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er 50. ráðherrann sem stýrir málaflokkum dómsmálaráðuneytisins frá því það var stofnað árið 1917.

Breytingar verða gerðar á skipulagi Stjórnarráðsins og verkefni færð milli ráðuneyta. Ráðgert er að breytingar á skipulagi og verkefnum ráðuneyta taki gildi 1. mars nk. en tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands verður lögð fyrir Alþingi í janúar. Þannig munu jafnréttismál og mannréttindamál færast til dómsmálaráðuneytisins frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Markmiðum sínum á málefnasviðum dómsmálaráðuneytisins hyggst ríkisstjórnin meðal annars ná með eftirfarandi aðgerðum:

"Með því að auka öryggi almennings og fjölga verulega lögreglumönnum á kjörtímabilinu. Tekið verður fast á skipulagðri glæpastarfsemi, netbrotum, mansali og kynbundnu ofbeldi. Samhliða þessu verða aðrir þættir réttarkerfisins styrktir til að tryggja hraða og örugga málsmeðferð."

"Með því að gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýslu til að tryggja mannúðlegt og skilvirkt móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Heimilt verður að afturkalla alþjóðlega vernd og brottvísa fólki sem fremur alvarleg afbrot eða ógnar öryggi ríkisins."

"Með því að leggja áherslu á jafna stöðu og jöfn réttindi allra, standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu, m.a. með jafnréttis- og hinseginfræðslu. Áfram verður unnið að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa. Ríkisstjórnin einsetur sér að vinna gegn sundrung og tortryggni og byggja undir traust og samheldni í íslensku samfélagi."

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta