Ingileif Friðriksdóttir aðstoðarmaður utanríkisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur ráðið Ingileif Friðriksdóttur í stöðu aðstoðarmanns ráðherra.
Ingileif er með BA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún hefur meðal annars starfað sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu, þáttastjórnandi á RÚV og framkvæmdastjóri hjá framleiðslufyrirtækinu Ketchup Creative. Þá er Ingileif einnig rithöfundur og hefur gefið út þrjár barnabækur auk skáldsögunnar Ljósbrot sem kom út í maí 2024.
Ingileif hefur jafnframt víðtæka reynslu af félagsstörfum. Hún hefur meðal annars setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands, trúnaðarráði Samtakanna’78 og tekið þátt í skipulagningu Druslugöngunnar. Hún er annar stofnenda fræðsluverkefnisins Hinseginleikans sem ætlað er að brjóta upp staðalímyndir um hinsegin fólk, auka sýnileika þess, stuðla að heilbrigðum fyrirmyndum fyrir ungt fólk og útrýma fordómum.
Ingileif hlaut árið 2018 viðurkenninguna „Framúrskarandi ungur Íslendingur“ fyrir starf í þágu mannúðar.