Starfsemi hafin hjá nýrri Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun
Um áramótin tóku til starfa nýjar stofnanir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun.
Ný Umhverfis- og orkustofnun, hefur þar með tekið við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, og fer nú með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar. Auk þess starfar Raforkueftirlitið sem sjálfstæð eining undir stofnuninni.
Ný náttúruverndarstofnun, hefur tekið við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar auk lífríkis og veiðistjórnunarhluta hennar. Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, sem og vernd villtra fugla og spendýra. Þá sinnir stofnunin eftirliti og samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar.
Sigrún Ágústsdóttir var í september skipuð forstjóri Náttúruverndarstofnunar og Gestur Pétursson forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.
Hugmyndinni um sameiningu stofnanna hefur verið varpað nokkrum sinnum fram í gegnum tíðina og var það í júlí 2024 sem Alþingi samþykkti frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. Nýju stofnanirnar eru liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem miða að því að skapa vettvang fyrir kraftmikið fagstarf og árangur.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Fækkun ríkisstofnana og aukin skilvirkni í stjórnsýslu eru meðal áhersluatriða nýrrar ríkisstjórnar og því er ánægjulegt að hefja árið með þessum tímamótum. Ný náttúruverndarstofnun með aðsetur á Hvolsvelli mun gegna lykilhlutverki við verndun náttúru og lífríkis á komandi árum. Og sameining stjórnsýslu orku- og umhverfismála í einni stofnun styður við áætlanir nýrrar ríkisstjórnar um að einfalda og hraða ferli leyfisveitinga og liðka fyrir aukinni orkuöflun. Ég hlakka til samstarfs við þessar stofnanir.“