Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra í vinnuheimsókn í Úkraínu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu héldu blaðamannafund að fundi þeirra loknum. - myndUtanríkisráðuneyti Úkraínu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er nú stödd í vinnuheimsókn í Úkraínu þar sem hún fundar með ráðamönnum, áréttar stuðning Íslands við varnarbaráttu Úkraínu og kynnir sér stöðu mála. Þorgerður Katrín hefur í dag meðal annars átt fundi með Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu og Denys Shmyhal forsætisráðherra.

„Það var óhugnanlegt að fræðast um og sjá með eigin augum þá eyðileggingu sem Rússar hafa valdið en þeir hafa kerfisbundið ráðist á borgaralega innviði á borð við skóla, sjúkrastofnanir og orkuinnviði, auk þess að ráðast á almenna borgara. Þá var mikilvægt að geta átt milliliðalaus samtöl við úkraínska ráðamenn og áréttað einarðan stuðning Íslands við íbúa Úkraínu gegn ólöglegri innrás Rússlands. Úkraínumenn hafa nú í nær þrjú ár barist hetjulega og af æðruleysi fyrir frelsi sínu og fullveldi. Stuðningur við Úkraínu er stuðningur við virðingu fyrir alþjóðalögum, lýðræði og mannréttindum sem eru þau gildi sem frjáls lýðræðisríki byggjast á. Það er mikilvægt að bandalagsríki og vinaþjóðir Úkraínu séu áfram samstíga í stuðningi sínum og við munum standa með Úkraínu eins lengi og þörf krefur,“ segir Þorgerður Katrín.

Ráðherrarnir þökkuðu meðal annars fyrir aukinn varnartengdan stuðning Íslands við Úkraínu sem samþykktur var á Alþingi í lok síðasta árs í samræmi við stefnu Alþingis um stuðning við Úkraínu. Þessi auknu framlög, sem nema einum og hálfum milljarði króna, eru jafnframt liður í því að standa við þær skuldbindingar sem Ísland tókst á hendur á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í júlí síðastliðnum. Framlagið skiptist niður á fjögur verkefni sem falla að forgangsröðun Úkraínu og helstu samstarfsríki Íslands taka einnig þátt í að styðja. Um er að ræða 600 milljóna framlag í sjóð um sprengjuleit og -eyðingu á vegum ríkjahóps sem Ísland leiðir ásamt Litáen, 400 milljónir í samstarfsverkefni að frumkvæmdi Danmerkur um stuðning við úkraínskan varnariðnað, 300 milljónir í sjóð Atlantshafsbandalagsins til stuðnings Úkraínu og 200 milljónir í alþjóðlegan stuðningssjóð fyrir Úkraínu og bresk stjórnvöld halda utan um.

Í heimsókn sinni heimsótti ráðherra orkuver sem orðið hefur fyrir miklum skemmdum í árásum Rússa og verksmiðju sem framleiðir varnarbúnað með stuðningi Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja.

Þorgerður Katrín heldur næst til Ramstein í Þýskalandi þar sem varnarmálaráðherrar ríkjahóps til stuðnings varnarbaráttu Úkraínu (e. Ukraine Defence Contact Group) funda um stöðuna á vígvellinum og stuðning ríkjanna við baráttu íbúa Úkraínu.

  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu. - mynd
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Denys Shmyhal forsætisráðherra Úkraínu. - mynd
  • Þorgerður Katrín lagði blóm við minnisvarða um fallna hermenn í stríðinu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta