Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Breytingar á sjúklingatryggingu tóku gildi 1. janúar

Ný lög um sjúklingatryggingu tóku gildi 1. janúar síðastliðinn, ásamt nýrri reglugerð um iðgjöld vegna sjúklingatryggingar. Lögin fela í sér ýmsar breytingar sem styrkja réttarstöðu sjúklinga sem verða fyrir heilsutjóni í tengslum við veitta heilbrigðisþjónustu. Verklag við meðferð bótamála hefur verið samræmt og hámarksbætur hækkaðar um 50%, úr u.þ.b. 14 m.kr. í 21 m.kr. 

Samræmd málsmeðferð hjá Sjúkratryggingum Íslands

Frá áramótum annast Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) stjórnsýslu allra bótamála sem byggja á lögum um sjúklingatryggingu. Áður voru sjálfstætt starfandi veitendur heilbrigðisþjónustu með sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélögum. Reynslan sýndi að málsmeðferð var ólík eftir tryggingafélögum. Eins var mismunandi hvernig sjúklingum var gert að sanna tjón sitt og vísbendingar um að bótaskyldu hefði verið hafnað þótt bótaskylt tjón væri fyrir hendi. Markmið breytinganna er að samræma málsmeðferð bótamála og tryggja jafnræði þannig að allir sitji við sama borð, óháð því hver veitti þeim þjónustuna. Þá er það nýmæli að veitendum heilbrigðisþjónustu er nú skylt að upplýsa sjúklinga um tilvist sjúklingatryggingar og mögulegan rétt þeirra til bóta. 

Sjálfstætt starfandi greiða iðgjöld til SÍ

Frá áramótum greiða sjálfstætt starfandi veitendur heilbrigðisþjónustu iðgjöld vegna sjúklingatryggingar til SÍ. Í nýrri reglugerð er kveðið á um iðgjaldagreiðslur þeirra, hve mikið hverjum beri að greiða auk fleiri atriða um útfærslu iðgjalds. Gjaldskrá fylgir reglugerðinni þar sem löggildum heilbrigðisstéttum er skipt upp í átta áhættuflokka sem ræður iðgjaldi hverrar stéttar fyrir sig. Byggt er á flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á störfum í heilbrigðisgeiranum. Ákvörðun iðgjalda byggir jafnframt á tryggingastærðfræðilegum útreikningum þar sem tekið er mið af fyrri tjónasögu heilbrigðisstétta hjá tryggingafélögunum.

Iðgjöld mega aðeins standa undir því sem nemur kostnaði vegna greiddra bóta og við umsýslu verkefnisins. Þessi kostnaður er tvíþættur. Hann felst annars vegar í kostnaði sem skiptist milli allra rekstraraðila í samræmi við áhættuflokkun. Hins vegar skal iðgjaldið standa undir kostnaði við bótagreiðslur sem einnig er breytilegur eftir heilbrigðisstéttum í ljósi fyrrnefndra útreikninga. Þær stéttir sem veita þjónustu þar sem hætta á tjóni er mest greiða hæst iðgjöldin en iðgjöld hinna eru að sama skapi lægri. 

Samráð við smíði reglugerðar um iðgjöld

Drög að nýrri reglugerð um iðgjald vegna sjúklingatryggingar voru birt í samráðsgátt 15. nóvember síðastliðinn og bárust 25 umsagnir. Ýmsar breytingar voru gerðar á reglugerðinni í ljósi athugasemda, eftir því sem tilefni þótti til. Í skjali sem aðgengilegt er í samráðsgátt stjórnvalda er farið ýtarlega yfir úrvinnslu umsagna og helstu þætti nýrrar reglugerðar og gjaldskrár um iðgjöld sjúklingatryggingar.

Reglugerðin ásamt gjaldskrá verður endurskoðuð eftir því sem reynsla gefur tilefni til og eigi síðar en fyrir lok október á þessu ári.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta