Nýr menningarráðherra flutti sitt fyrsta ávarp á Menningarhátíð RÚV
Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2024 voru veitt í gær við gleðilega athöfn í Útvarpshúsinu, Efstaleiti. Logi Már Einarsson nýr menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra flutti við tilefnið sitt fyrsta ávarp sem ráðherra menningar og sagði við tilefnið að sitt hlutverk væri skýrt og hann væri fullur tilhlökkunar yfir menningarframtíð Íslands.
„Það er mér mikill heiður að fá að taka þátt í dagskránni hér í dag og vekja athygli á því frábæra listafólki sem auðgar menningarlíf þjóðarinnar. Listin nærir andann, fær okkur til að hlæja, gráta og heillast. Hún dýpkar skilning á okkur sjálfum og heiminum i kringum okkur. Hún ögrar, eykur samkennd og auðgar líf okkar, tungumál, lýðræði og samfélag. Ég tók nýverið við nýju menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti og ætla mér að standa vörð um listir og menningu á Íslandi á næstu mánuðum og árum,“ sagði Logi Már og óskaði bæði viðurkenningarhöfum innilega til hamingju og menningunni allri fyrir gefandi ár.
Veittar voru tvær viðurkenningar úr Rithöfundasjóði og tilkynnt um styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs á árinu. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning, og tilkynnt var um valið á orði ársins 2024 að mati hlustenda RÚV og RÚV.is. Orðið sem hlaut flest atkvæði í netkosningu var starfsheitið hraunkælingarstjóri og vísar til starfs þess sem stendur vaktina við rennandi hraun og kælir jaðar þess til að minnka hættu á slysum og skemmdum.