Ísland nýtir áfram sveigjanleikaákvæði ETS
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að Ísland muni áfram nýta ETS-sveigjanleikaákvæði skv. 6 gr. reglugerðar (ESB) um samfélagslosun fyrir árin 2026-2030. Ákvörðunin er byggð á tillögu stýrihóps skipuðum starfsfólki úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og frá Umhverfis- og orkustofnun. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um nýtingu sveigjanleikaákvæða sem varða möguleg kaup eða sölu á losunarheimildum fyrir hvert ár skuldbindingatímabilsins.
Skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum gagnvart ESB á tímabilinu 2021–2030 byggjast á þátttöku í þremur meginkerfum; samfélagslosun (e. Effort sharing regulation – ESR), landnotkun og skógrækt (Land use, land use change and forestry – LULUCF) og viðskiptakerfi með losunarheimildir (Emission trading system – ETS). Uppgjör á loftslagsskuldbindingunum Íslands vegna samfélagslosunar fer fram árið 2027 fyrir fyrri hluta tímabilsins (2021–2025) og árið 2032 fyrir seinni hluta tímabilsins (2026–2030).
Öll ríki sem taka þátt í ETS-kerfinu fá ákveðinn fjölda losunarheimilda sem þau geta selt á uppboðsmarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. ETS-sveigjanleikaákvæðið veitir ákveðnum aðildarríkjum ESB, ásamt Íslandi og Noregi, sérstaka sveigjanleikaheimild til að nýta þær heimildir til að auðvelda ríkjunum að ná settum samdrætti í losun. Samkvæmt ákvæðinu hefur Ísland heimild til þess að nýta árlega allt að 4% af umræddum úthlutuðum losunarheimildum úr ETS-viðskiptakerfinu (miðað við losun árið 2005) til að gera upp skuldbindingar í samfélagslosun. Þær losunarheimildirnar sem þannig eru fluttar á milli kerfa yrðu annars boðnar upp á uppboðsvettvangi ESB fyrir ETS.
Í tillögum stýrihópsins var horft til stöðu Íslands gagnvart skuldbindingum landsins í loftslagsmálum. Jafnframt var horft til þess hvaða áhrif nýting sveigjanleikans hefði í för með sér og borið saman við stöðu Íslands ef hann yrði ekki nýttur. Sú tilfærsla á milli kerfa sem felst í sveigjanleikaákvæðinu hefur þannig ekki áhrif á heildarsamdrátt í losun á EES- svæðinu, heldur eingöngu innan hvors kerfis hún eigi sér stað.
Hópurinn bendir í tillögum sínum ennfremur á að nýting ETS-sveigjanleikans geti haft bein áhrif á fjármál ríkisins vegna tapaðra tekna af uppboðum losunarheimilda, en að sama skapi geti Ísland lent í þeirri stöðu að ef að losun verði umfram skuldbindingar verði sveigjanleikaákvæðið ekki nýtt, geti það kallað á kaup á fleiri losunarheimildum úr ESR-kerfinu. Slíku fylgir umtalsverð óvissa, þar sem hvorki liggur fyrir mögulegt framboð né verð á slíkum losunarheimildum.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ákvörðunin um áframhaldandi nýtingu sveigjanleikaákvæðisins byggir á faglegu mati sérfræðinga úr tveimur ráðuneytum og undirstofnun. Þetta snýst um að lágmarka fjárhagsáhættu ríkisins vegna losunar og draga úr óvissu í samræmi við ábyrga fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar.”
Ákvörðun um nýtingu sveigjanleikaákvæðisins er hægt að endurskoða fyrir lok árs 2027, áður en seinni hluti tímabilsins (2028-2030) tekur við. Á þeim tíma mun uppgjör á samfélagslosun fyrir tímabilið 2021–2025 liggja fyrir, ásamt nýrri gögnum um stöðu Íslands gagnvart skuldbindingum fyrir fyrri hluta tímabilsins og nákvæmari framreikningum fyrir seinni hluta tímabilsins, 2028–2030.