Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra heimsótti Lyfjastofnun

Alma D. Möller og Rúna Hauksdóttir Hvannberg - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra heimsótti Lyfjastofnun í liðinni viku, fundaði með framkvæmdaráði stofnunarinnar og kynnti sér starfsemina. Lyfjastofnun starfar á grundvelli lyfjalaga sem hafa það meginmarkmið að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi.

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra: „Lyfjastofnun er einn af grunnstoðum heilbrigðiskerfis okkar landsmanna. Hún gegnir lykilhlutverki í því að tryggja öryggi landsmanna með greiðu aðgengi að lyfjum og lækningatækjum á öllum tímum. Þetta eru risavaxnar áskoranir en verkefnið er í góðum höndum hjá öflugum stjórnendum og sérfræðingum stofnunarinnar.“

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar: „Ég fagna sérstaklega þeim áhuga sem ráðherra hefur þegar sýnt starfsemi Lyfjastofnunar með heimsókn sinni. Slíkur stuðningur skiptir miklu máli fyrir áframhaldandi árangur. Ég er full bjartsýni á gott samstarf við ráðherra í framtíðinni og hlakka til að vinna í sameiningu að lyfjamálum með öryggi lyfjanotenda í fyrirrúmi.“

Verkefni Lyfjastofnunar eru víðtæk og mörg. Í skipuriti stofnunarinnar er þeim skipt á tvö kjarnasvið sem annað fer með mál sem varða mat og skráningu lyfja og hins vegar mál tengd aðgengi og öryggi lyfja. Í mati og skráningu felst útgáfa markaðsleyfa, gæða og aðgengismat, vísindaráðgjöf, lyfjagát og þátttaka í nefndum Lyfjastofnunar Evrópu. Lyfjastofnun er hlekkur í keðju lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu og fer fram umfangsmikið samstarf milli þessara stofnana og Lyfjastofnunar Evrópu í Amsterdam.

Verkefni sem falla undir aðgengi og öryggi snúast um eftirlit með framleiðslu, dreifingu og afhendingu lyfja. Aðgerðir til að sporna við eða bregðast við lyfjaskorti, umfjöllun um undanþágulyf, tilkynningar um aukaverkanir, eftirlit með lækningatækjum og verð- og greiðsluþátttaka falla einnig undir aðgengis- og öryggismál.

Undir stoðsvið Lyfjastofnunar heyra fjármál og innviðir, stjórnsýsla, upplýsingatækni, gæða og öryggismál og þjónustuver stofnunarinnar.

Hjá Lyfjastofnun starfa 72 starfsmenn í tæplega 66 stöðugildum. Flestir þeirra eru háskólamenntaðir og með sérþekkingu á lyfjamálum.

 

Frá heimsókn heilbrigðisráðherra til Lyfjastofnunar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta