Jón Magnús og Guðríður Lára aðstoðarmenn heilbrigðisráðherra
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ráðið sem aðstoðarmenn sína Jón Magnús Kristjánsson lækni og Guðríði Láru Þrastardóttur lögfræðing.
„Ég tel mikinn feng í því að hafa fengið Jón Magnús og Guðríði Láru mér til aðstoðar. Þau hafa bakgrunn, menntun og reynslu á ólíkum sviðum. Samanlagðir kraftar þeirra munu tvímælalaust nýtast vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru í heilbrigðisráðuneytinu og ég hlakka til að vinna með þeim“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.
Guðríður Lára hefur verið aðstoðarmaður þingsflokks Samfylkingarinnar frá árinu 2022. Hún er með BA- og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Guðríður starfaði sem héraðsdómslögmaður hjá OPUS lögmönnum og VALVA lögmönnum árin 2008-2014. Árin 2015 til 2022 starfaði hún sem lögfræðingur í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og teymisstjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi.
Jón Magnús er sérfræðingur í bráðalækningum og fyrrum yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala. Hann er auk þess með MBA gráðu frá háskólanum í Reykjavík og diploma gráðu í opinberri stjórnsýslu frá háskóla Íslands. Jón Magnús hefur viðtæka starfsreynslu í heilbrigðiskerfinu um allt land og hefur áður starfað í heilbrigðisráðuneytinu þar sem hann var árið 2022 ráðinn til að leiða tímabundið viðbragðsteymi til að efla bráðaþjónustu á landsvísu. Jón Magnús hefur birt fjölda greina í ritrýndum fagtímaritum og komið að og stýrt mörgum þróunar- og gæðaverkefnum á Landspitalanum.