Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2025 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hrönn skipuð forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu

Hrönn Greipsdóttir - mynd

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur skipað Hrönn Greipsdóttur í starf forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og varð til við samruna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. Hlutverk sjóðsins er að auka framboð fjármagns og fjármögnunarkosta fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og auka viðnámsþrótt fjármögnunarumhverfisins. Sjóðurinn hefur jafnframt það hlutverk að hvetja, með fjárfestingum sínum, einkafjárfesta til þátttöku í fjármögnun nýsköpunar.

Starf forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu var auglýst laust til umsóknar 14. nóvember 2024. Alls bárust 39 umsóknir um starfið en 15 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Eftir ítarlegt matsferli lagði stjórn sjóðsins til við ráðherra að Hrönn Greipsdóttir yrði ráðin í starf forstjóra.

Hrönn er með Cand.Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá City University Business School í London. Hún er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík.Undanfarin tvö ár hefur Hrönn gegnt stöðu framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins þar sem hún hefur borið ábyrgð á rekstri og stjórnun sjóðsins ásamt fjármögnun og ýmsum umsýsluverkefnum. Áður starfaði Hrönn sem framkvæmdastjóri Eldeyjar fjárfestingarfélags í fimm ár þar sem hún var ábyrg fyrir og leiddi fjárfestingar og eignastýringu félagsins, sem var í vörslu hjá Íslandssjóðum.

Hrönn hefur í gegnum tíðina setið í fjölda stjórna, allt frá litlum og meðalstórum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum til eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja. Hún sat meðal annars í stjórn Verðbréfasjóðs Búnaðarbanka Íslands, Viðskiptaráðs Íslands, HF verðbréfa, auk fjölda ferðaþjónustufyrirtækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta