Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins
Stuðningur við Úkraínu og varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins voru efst á baugi á fundi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra með Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í höfuðstöðvum bandalagsins í dag. Utanríkisráðherra kynnti áherslur ríkisstjórnarinnar í öryggis- og varnarmálum, meðal annars vinnu við varnar- og öryggisstefnu fyrir Ísland sem miðar að því að styrkja stöðu landsins í breyttum heimi. Allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu var sömuleiðis til umræðu og aðgerðir til að auka fælingar- og varnargetu bandalagsins, meðal annars á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Staða mála í Mið-Austurlöndum var einnig rædd. Þá voru áherslur og undirbúningur leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins, sem fram fer í Haag í Hollandi í sumar, einnig til umræðu.
„Ísland hefur í um 75 ár tryggt öryggi sitt með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin. Nú þegar alþjóðakerfið á undir högg að sækja og Evrópa stendur frammi fyrir stærstu öryggisógn frá lokum síðari heimsstyrjaldar er mikilvægt sem aldrei fyrr að Ísland styrki eigin varnir og leggi sitt að mörkum til sameiginlegra öryggisskuldbindinga sem tryggja öryggi okkar allra. Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu er eitt brýnasta verkefnið og er samofið okkar eigin öryggishagsmunum. Við erum stödd á víðsjárverðum tímum í alþjóðapólitík og þurfum að vera vakandi fyrir okkar stöðu og því sem við getum gert til að leggja okkar af mörkum,“ segir Þorgerður Katrín.