Reglulegur samráðsfundur um tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands
Fundur háttsettra embættismanna Íslands og Grænlands fór fram í Reykjavík á miðvikudag þar sem farið var yfir tvíhliða samstarf landanna. Fundurinn er liður í reglulegu samráði landanna á grundvelli samstarfsyfirlýsingar sem forsætisráðherra Íslands og formaður landsstjórnar Grænlands undirrituðu í Reykjavík 13. október 2022 um aukið samstarf. Gagnkvæmur vilji er til að efla og útvíkka tvíhliða samvinnu landanna sem er þegar töluverð.
Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem er lögð sérstök áhersla á; viðskipti, fiskveiðar, efnahagssamstarf, loftslagsbreytingar og líffræðilegur fjölbreytileiki, jafnréttismál, menntun og rannsóknir, og menningarsamstarf. Á undanförnum árum hefur samstarf Íslands og Grænlands aukist, báðum löndunum til hagsbóta. Löndin hafa margvíslega sameiginlega hagsmuni og tækifæri auk þess að glíma við sambærilegar áskoranir í loftslags- og umhverfismálum.
Á fundinum í Reykjavík var farið yfir samstarf landanna á hverju málefnasviði í yfirlýsingunni, framgang verkefna og horft til frekari sóknarfæra á þessum sviðum, sem og tengslamyndunar embættismanna. Þá voru rædd mál sem eru ofarlega á baugi í löndunum.
Auk reglulegs samráðs milli háttsettra embættismanna landanna er mælt fyrir um það í yfirlýsingunni að forsætisráðherra Íslands og formaður landsstjórnar Grænlands muni funda annað hvert ár, til skiptis í Reykjavík og Nuuk, til þess að fara yfir framgang þeirra verkefna sem tengjast samstarfsyfirlýsingunni.