Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Reglulegur samráðsfundur um tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Mininnguaq Kleist, ráðuneytistjóri í grænlenska utanríkisráðuneytinu. - myndJH

Fundur háttsettra embættismanna Íslands og Grænlands fór fram í Reykjavík á miðvikudag þar sem farið var yfir tvíhliða samstarf landanna. Fundurinn er liður í reglulegu samráði landanna á grundvelli samstarfsyfirlýsingar sem forsætisráðherra Íslands og formaður landsstjórnar Grænlands undirrituðu í Reykjavík 13. október 2022 um aukið samstarf. Gagnkvæmur vilji er til að efla og útvíkka tvíhliða samvinnu landanna sem er þegar töluverð.

Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem er lögð sérstök áhersla á; viðskipti, fiskveiðar, efnahagssamstarf, loftslagsbreytingar og líffræðilegur fjölbreytileiki, jafnréttismál, menntun og rannsóknir, og menningarsamstarf. Á undanförnum árum hefur samstarf Íslands og Grænlands aukist, báðum löndunum til hagsbóta. Löndin hafa margvíslega sameiginlega hagsmuni og tækifæri auk þess að glíma við sambærilegar áskoranir í loftslags- og umhverfismálum. 

Á fundinum í Reykjavík var farið yfir samstarf landanna á hverju málefnasviði í yfirlýsingunni, framgang verkefna og horft til frekari sóknarfæra á þessum sviðum, sem og tengslamyndunar embættismanna. Þá voru rædd mál sem eru ofarlega á baugi í löndunum. 

Auk reglulegs samráðs milli háttsettra embættismanna landanna er mælt fyrir um það í yfirlýsingunni að forsætisráðherra Íslands og formaður landsstjórnar Grænlands muni funda annað hvert ár, til skiptis í Reykjavík og Nuuk, til þess að fara yfir framgang þeirra verkefna sem tengjast samstarfsyfirlýsingunni.  

 
  • Reglulegur samráðsfundur um tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Reglulegur samráðsfundur um tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands  - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta