Samgöngusáttmálinn: Ráðherra tók fyrstu skóflustungu að nýrri Fossvogsbrú
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í dag fyrstu skóflustungu að Fossvogsbrú ásamt Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, Ásdísi Kristjánsdóttur ,bæjarstjóra Kópavogs, Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, og Davíð Þorlákssyni, framkvæmdastjóra Betri samgangna.
Fossvogsbrú er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem ríkið og sex sveitarfélög standa sameiginlega að og var uppfærður í ágúst. Í sáttmálanum er allt í senn lögð áhersla á uppbyggingu stofnvega, almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga. Markmiðið er að stytta ferðatíma, auka umferðaröryggi, minnka mengun og bæta lífsgæði fólks með bættum loftgæðum.
Fossvogsbrú er jafnframt fyrsta stóra framkvæmdin í þeim hluta samgöngusáttmálans sem snýr að því að efla almenningssamgöngur. Tilkoma Fossvogsbrúar mun stytta vegalengdir og stuðla að því að draga úr umferðarálagi á vegum.
„Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í fyrstu skóflustungu Fossvogsbrúar á grundvelli samgöngusáttmálans. Tilkoma brúarinnar mun hafa mikla þýðingu við að dreifa álagi á vegum á höfuðborgarsvæðinu en gert er ráð fyrir að 10 þúsund manns ferðist daglega um brúna. Brúin mun létta á umferð á stofnvegum með því að fleira fólk mun kjósa að nýta aðrar samgönguleiðir. Í nýjum stjórnarsáttmála er áhersla lögð á að fjárfesta í samgönguinnviðum um land allt til að efla verðmætasköpun og bæta lífsgæði fólks, m.a. á grundvelli samgöngusáttmálans,“ segir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Nánar um Fossvogsbrú
Gert er ráð fyrir að Fossvogsbrú verði tilbúin um mitt ár 2028. Fossvogsbrúin mun tengja saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavík. Brúin er ætluð almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum, auk forgangsaksturs lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs.
Heildarkostnaður við Fossvogsbrú nemur 8,3 milljörðum kr. Kostnaður vegna landfyllinga nemur um 500 milljónum kr. en Reykjavíkurborg mun bera straum af þeim kostnaði.
Framkvæmdir við landfyllingar og sjóvarnir tengdum byggingu brúarinnar hófust af fullum krafti á Kársnesi í Kópavogi í dag. Vegagerðin gerði verksamning við fyrirtækið Gröfu og grjót í byrjun árs vegna landfyllinga og sjóvarna vegna Fossvogsbrúar.
Heildarfjárfesting allra verkefna í samgöngusáttmálanum, sem var uppfærður í ágúst sl., nemur alls 311 milljörðum kr.
Vegagerðin verkstýrir verkefninu f.h. Betri samgangna sem bera ábyrgð á framkvæmdum sáttmálans.