Ráðherra heimsótti Sjúkratryggingar Íslands
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Sjúkratryggingar Íslands, kynnti sér starfsemina og ræddi við starfsfólk. Á fundi með forstjóra og stjórnendum fór ráðherra yfir helstu áherslumál nýrrar ríkisstjórnar í heilbrigðismálum. Sigurður H. Helgason forstjóri kynnti stofnuna fyrir ráðherra, skipulag hennar, helstu viðfangsefni, stefnu og framtíðarsýn.
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) starfa samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Markmið þeirra er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar eftir því sem frekast er unnt og styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.
SÍ miðla með beinum og óbeinum hætti um 260 milljörðum króna á ársgrundvelli með beinum greiðslum og greiðslulíkönum sem eru forsendur fjárveitinga og framlaga. Þetta er meirihluti allra heilbrigðisútgjalda hins opinbera. Eitt viðamesta verkefni stofnunarinnar felst í kaupum á heilbrigðisþjónustu með samningum við veitendur þjónustunnar.
Að gera réttu hlutina og sporna við sóun
„Sjúkratryggingar fara með gríðarmikla fjármuni til verkefna sem snúast öll um heilsu og velferð landsmanna og eru lykilstofnun við kaup á heilbrigðisþjónustu. Öllu skiptir að nýta fjármunina sem best, gera réttu hlutina sem skila mestum heilsufarslegum árangri fyrir almenning og sporna við sóun“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.
Í heilbrigðismálum leggur hún jafnframt áherslu á stöðuga og markvissa vinnu til að efla lýðheilsu.
Sigurður H. Helgason forstjóri kynnti fyrir ráðherra stöðu helstu samninga sem SÍ vinna að og nýlega stóra samninga stofnunarinnar við veitendur heilbrigðisþjónustu.
„Við vinnum stöðugt að því að gera samninga stofnunarinnar markvissari með það að leiðarljósi að allir hafi tímanlegt aðgengi að þjónustu í samræmi við þarfir og innan eðlilegra tímamarka. Þar leggjum við áherslu á að samningar byggi á gagnreyndri meðferð, faglegu og hagrænu mati og miði að því að tryggja jafnræði og aðgengi í samræmi við þarfir íbúa í landinu,“ segir Sigurður H. Helgason, forstjóri SÍ.